Níu ára afmælisbarn býður fólki mat: Aðeins fjórir mættu í veisluna

Blaðamaður Nútímans fékk sting í hjartað þegar hann fletti í gegnum Facebook í kvöld en þar kom hann auga á auglýsingu þar sem fjölskylda ein í Breiðholti auglýsti gefins mat, djús og nammi.

Ástæðan fyrir öllum þessum mat var sú að yngsta barnið á heimilinu var að halda upp á níu ára afmælið sitt en aðeins fjórir bekkjarfélagar hennar mættu af þeim sextán sem var boðið.

„Hún var mjög sár,“ segir móðir stúlkunnar sem ekki vildi láta nafns síns getið. Við fengum samt góðfúslegt leyfi til þess að greina frá þessu góðverki.

Þessi litla níu ára gamla hetja vildi nefnilega ekki að allur afmælismaturinn færi til spillis – hann ætti að fara til þeirra sem ættu um sárt að binda og ættu kannski ekki fyrir mat. Pæliði í því að hugsa svona, aðeins níu ára gömul.

Fjölskyldan tók sig því til og pakkaði inn öllum afmælismatnum, setti nammið og djúsinn í poka, og setti í „frískáp“ sem stendur við Brúnna í Völvufelli. Þangað geta allir komið með mat eða tekið sér mat ef þeir þurfa þess.

Nútíminn hvetur foreldra til þess að fylgjast vel með afmælisboðum frá bekkjarfélögum barna sinna – það ætti ekkert barn að þurfa að upplifa svona vonbrigði á afmælisdaginn.

Við  á Nútímanum viljum aftur á móti óska þessari níu ára gömlu stúlku til hamingju með daginn. Þú ert hetjan okkar og heimurinn væri miklu betri ef allir væru jafn jákvæðir og góðhjartaðir eins og þú!

ritstjorn@nutiminn.is

Auglýsing

læk

Instagram