RASK stendur fyrir alþjóðlegri listahátíð í Mengi

Næstkomandi föstudag munu 10 listamenn frá Noregi, Slóvakíu og Íslandi koma fram á Festival for Spontaneous Arts. Hátíðin er skipulögð af íslenska listafélaginu RASK í samstarfi við slóvakísku tónlistarhátíðina NEXT. Haldnir verða tvennir tónleikar í Mengi með ólíkri dagskrá kl. 18 og 21. Listafólkið sem kemur fram er Anna Čonková (SK), Ás Dís (IS), Daniel Meyer Grønvold (NO), Digital Sigga (IS), Erika Coyle (SK), Guoste Tamulynaite (NO), Heida Karine Johannesdottir (NO), Jakub Šulík (SK), Ragnar Árni Ólafsson (IS) og Örlygur Arnalds (IS). Kvöldið í Mengi verður helgað spunatónlist með hljóðfærum, söng og rafhljóðum, lifandi hreyfimyndum og ýmsum tilraunalistformum. Hátíðinni lýkur með eftirpartýi á Stereo þar sem DJ Sley mun þeyta skífunum. Dagskráin er því gífurlega fjölbreytt og mun reyna á öll skilningarvit tónleikagesta. 

Hátíðin er uppskera eftir vikulanga listamannadvöl sem er hluti af verkefninu NOISS, og er eins og áðurnefnt, unnin í samstarfi við tónlistarhátíðina NEXT en það er ein mikilvægasta hátíð tilrauna- og nútímatónlistar í Evrópu. Þar hafa áður komið fram listamenn á borð við hljóðlistamanninn Mark Fell, breska fríspunahópinn AMM, ítalska hljóðgervlalistakonan Caterina Barbieri og íslenski tilraunahópurinn S.L.Á.T.U.R. Hátíðin mun vera haldin í 22. skipti í nóvember næstkomandi, en þá koma fram íslensku tónskáldin Bára Gísladóttir og Sól Ey ásamt fjöllistahópnum Creative Catastrophe Collective.

Hátíðin og listamannadvölin er hluti af tveggja ára samstarfsverkefni sem ber titilinn  ‘NOISS (Norway–Iceland–Slovakia): New Musics for New Audiences’. Verkefnið leggur áherslu á þróun og uppbyggingu nútímatónlistar, þverfaglegra lista og samstörf þar á milli, og samanstendur af bæði tónleikum, sýningum, hátíðum og nýjum samstarfsverkefnum sem kynnt eru í Bratislava og Spissky Hrhov í Slóvakíu, í Ósló og í Reykjavík. Skipuleggjendur verkefnisins eru samtök frá Slóvakíu (A4-Space for Contemporary Culture / Bratislava, EQO / Spišský Hrhov), Antalova Music frá Ósló og RASK Collective frá Reykjavík. Verkefnið nýtur 30 milljóna króna styrks frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi í gegnum EES-styrkina, auk meðfjármögnunar frá Tónlistarsjóði Rannís og frá landssjóði Slóvakíu.

Auglýsing

læk

Instagram