Rétthugsun í orkumálum bitni á hagsmunum landsmanna

Brynjar Níelsson segir að ríkjandi rétthugsun í orkumálum á Íslandi vera koma harðlega niður á hagsmunum allra landsmanna. Þetta kemur fram í viðtali á efnisveitunni Brotkast þar sem Brynjar var gestur Frosta Logasonar.

„Það er bara eins og maður sé kominn í Undraland, en svona er bara pólitíkin“

„Það hefur ekkert gerst núna í ansi langan tíma. Suðurnesjalína 2 tók tuttugu ár. Hvað ætli þetta muni kosta þjóðina, allar þessar tafir? Það er búið að búa til umhverfismöt þannig að einhverjir hópar geti stoppað allt,“ segir Brynjar sem talar um nauðsyn þess að orkuframkvæmdir séu keyrðar í gegn með lögum því annars gerist ekki neitt.

„Síðan allt í einu vöknum við upp við vondan draum og þá er bara kominn fyrirséður orkuskortur. Þetta er bara eins og vitleysingarnir í Þýskalandi sem ákváðu að loka öllu kjarnaofnunum, síðan þá hafa landsmenn þurft að borga þrefalt eða fjórfalt hærri orkukostnað.“

Brynjar hefur áhyggjur af því að öll skynsemi í þessum málaflokki sé látin fjúka út í veður og vind af því háværir hópar tali fyrir ákveðinni rétthugsun sem allir séu logandi hræddir við.

„Svo gera þeir á sama tíma kröfu um orkuskipti af því að heimurinn sé að bráðna útaf einhverju sem er nú ein dellan enn,“ segir Brynjar sem segist ekki átta sig á hvernig fólk ætlist til að fá meira rafmagn á sama tíma og það geri kröfu um að minna sé virkjað.

„Það er bara eins og maður sé kominn í Undraland, en svona er bara pólitíkin,“ segir Brynjar að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram