STAF/ÐSETNING Listaþon

Listaþonið STAF/ÐSETNING er fyrsta sýningin sem opnar í menningarrýmið Midpunkt eftir Covid-lokun. Að sýningunni standa listamennirnir Harpa Dögg Kjartansdóttir og Brynjar Helgason. Þau eru ólíkir listamenn sem eiga í samtali í gegnum verk sín í rýminu.

Þetta er fyrsta listaþonið sem fer fram í Midpunkt.

Bæði Brynjar og Harpa lærðu myndlist við Listaháskóla Íslands áður en þau héldu út í hinn stóra heim. Brynjar hefur sýnt í bæði Hollandi og Hong Kong, en Harpa fór í meistaranám í Konstfack í Stokkhólmi og hefur sýnt á fjölmörgum stöðum í Svíþjóð, auk Lúxemborgar. Verk Hörpu og Brynjars eru ólík en eiga það sameiginlegt að vera þrívíðir munir sem kallast á við rýmin sem þeir eru í.

Opnun fer fram laugardaginn 16. maí næstkomandi klukkan fjögur og eru allir velkomnir svo framarlega sem hægt er að hlýða tilmælum um fjarlægð og fjölda.

Um sýninguna:

Sýningarrými er sjaldan meira en ferhyrningur, hvítmálaður eða gróf steypa og það sem gerir það frábrugðið öðrum slíkum rýmum eru hlutirnir sem dreifðir eru um rýmið og tala saman við hvor annan og alla þá sem ganga inn.

Samtalið og samband listmunanna við hvorn annan er lykilatriði, því þessi grófi ferhyrningur gæti líka verið lager, það var t.d. hlutverk rýmisins sem nú er Midpunkt. Eitt sinn var það geymslurými fyrir ýmsar búðir í Hamraborg og alls kyns hlutir geymdir þar einungis til að vera geymdir þar, og voru síðan sóttir til að gegna einhverju hlutverki á öðrum stað. En í sjálfu sér er ekki mikill munur á lager eða listasafni ef út í það er farið. Fjölmörg nútímalistasöfn eru t.d. oft á tíðum gamlar verksmiðjur, eða á Íslandi gömul frystihús, og þeir salir sem eitt sinn hýstu iðnaðarvarning eða frosin fisk orðnir að rýmum sem geyma listmuni.

Listamennirnir Harpa Dögg Kjartansdóttir & Brynjar Helgason hafa hingað til unnið í sitt hvoru lagi en leggja nú upp með listaþon í einum þætti þar sem á sér stað væntanlegur hittingur svokallaðra listhluta, sem þau hvort tveggja leggja til úr sínu safni.

Þverstæður hafa verið listamönnunum hugleikin í því ferli að raða upp verkunum og kynna þau fyrir rýminu og hvort öðru og er þversögn Zenons um Akilles og Skjaldbökuna þar í fararbroddi: Í kapphlaupi getur besti hlauparinn aldrei tekið fram úr þeim hægasta, vegna þess að sá sem er á eftir þarf fyrst að komast að þeim punkti þar sem sá sem er á undan hóf hlaupið. Sá hægfarari heldur því ávallt forskotinu.

Þannig líður okkur stundum að samband okkar við listina sé. Þó svo hún hlaupi hægt og séum fljótt að ná henni og skilja hana, þá þurfum við ekki annað en að líta aftur undan og þá sjáum við að samhengið er orðið allt annað og merkingin komin á nýjan punkt. Þannig er ekki ólíklegt að mismunandi nálgun þessara tveggja listamanna muni verða til ákveðins margfeldis í merkingu, sem hlaupi sífellt undan þeim og enn lengra frá okkur, og þó svo við náum þeim punkti og færumst nær þá verðum við aldrei alveg þar, aldrei á sjálfum Miðpunktinum.

Auglýsing

læk

Instagram