Vann rúmlega 41 milljón – Þrír synir, þrjár raðir og þrefaldur pottur!

Það var heppin kona á sjötugsaldri sem var ein með allar tölur réttar í Lottó á jóladag en þá var dreginn út hæsti þrefaldi pottur hingað til, rúmlega 41,1 milljón króna.

Konan, sem býr á höfuðborgarsvæðinu, lét athuga miðann á sölustað í gær og var vísað niður í Laugardal í höfuðstöðvar Íslenskrar getspár. Þar voru góðu fréttirnar opinberaðar og komu vinningshafanum gjörsamlega í opna skjöldu. Segja má að vinningurinn hafi verið heppileg aukaverkun af jólastressinu því eins og sú heppna lýsir því þegar var hún skyndilega stödd fyrir framan N1 við Bíldshöfða án þess að muna hvaða erindi hún átti þangað. Hún ákvað því að skella sér bara inn og kaupa Lottómiða. Hún brá ekki út af vananum og keypti þrjár raðir í sjálfvali þar sem hún á þrjá syni.

Þessi lukkulega kona segir vinninginn einstaklega kærkominn og fyrsta verk sé að greiða eftirstöðvarnar af húsnæðisláninu. En mest hlakkar hún til að fagna með sonum sínum enda séu þeir allir hjá henni núna um hátíðarnar þótt þeir séu uppkomnir og búsettir erlendis.

Auglýsing

læk

Instagram