https://www.xxzza1.com

Bændur sæta ofsóknum: „Börnin hafa verið lögð í einelti“

Blóðmerahald er eitt eldfimasta mál síðari tíma þegar kemur að búgreinum hér á landi en bændur telja að sér vegið með óvæginni og rangri umfjöllun fjölmiðla, þar á meðal Ríkissjónvarpsins.

Enginn bóndi hefur viljað stíga fram til að verja greinina vegna þess aðkasts sem þeir og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir. Allt frá opinberum starfsmönnum til Alþingismanna hafa kallað bændurna dýraníðinga. Þetta hefur valdið því að bændur hafi í nokkrum tilfellum þurft að taka börn sín úr skóla vegna eineltis sem fylgt hefur í kjölfarið.

„Þessi fjölmiðlaumræða að mála okkur sem einhverja dýraníðinga. Þetta er bara mjög erfitt fyrir fólk sem lendir í þessu. Við erum öll manneskjur og við eigum fjölskyldu og börn“

Fyrr en nú. Þórdís Björnsdóttir og Orri Guðmundsson eru bændur á Suðurlandi en þau settust niður með Frosta Logasyni í viðtalsþætti á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Þar greina þau frá afleiðingum óvæginnar umræðu kjörinna fulltrúa á Alþingi og þeirra myndskeiða sem birst hafa í fjölmiðlum. Þau segja dýraverndunarsinna hafa málað upp mjög skakka mynd af búgreininni með því að hafa birt opinberlega samanklippt myndefni sem sýni undantekningartilvik sem eigi alls ekki við um alla blóðmerabændur. Þau segja greinina undir einu harðasta eftirliti sem nokkur búgrein sé undir og að niðurstöður þess eftirlits, samkvæmt opinberum stofnunum, sýni fram á að skepnur í greininni hafi það mjög gott.

Þá fullyrða þau að ákveðnir þingmenn á Alþingi hafi farið með ítrekaðar rangfærslur um málið á opinberum vettvangi og furða sig á að slíkt hafi engar afleiðingar.

Beitt andlegu ofbeldi

„Þessi fjölmiðlaumræða að mála okkur sem einhverja dýraníðinga. Þetta er bara mjög erfitt fyrir fólk sem lendir í þessu. Við erum öll manneskjur og við eigum fjölskyldu og börn. Það eru dæmi um það að krakkar hafi þurft að fara úr skóla því þau verða fyrir aðkasti. Þetta er bara ofbeldi hvernig gengið er að okkur,“ segir Orri og undir það tekur Þórdís.

„Það er grafalvarlegt og ætti ekki að viðgangast í neinu. Eins og þarna þegar eitt myndbandið kom út og því fylgdi mikil umfjöllun bara á aðra hliðina og það var bara þannig að börnin voru bara lögð í einelti í skólanum,“ segir Þórdís og bætir við að dæmi séu um að börn hafi þurft að hætta í viðkomandi skólum tímabundið til að stöðva eineltið.

„Það eru allir sammála um það að vera góðir við dýrin sín það leggur enginn af stað í þessa búgrein með þann vilja að verki að stunda dýraníð.“

„Þau voru ekkert á þessu myndefni,“ segir Orri sem er ómyrkur í máli – rétt eins og Þórdís sem bendir á hið sjálfsagða en harða eftirlit sem búgreinin sætir. „Fólk á algjörlega rétt á sinni skoðun og má alveg halda þetta. Að blóðmerahald sé dýraníð. Aftur á móti eins og ég kynnist þessu að þá vorum við með hross á bænum áður en við byrjum í blóðtöku fyrir fjórum árum síðan. Eftir að við byrjum í því þá margfaldaðist eftirlit með hrossunum og þegar við erum í blóðtökum, sérstaklega núna eftir að myndböndin komu út,“ segir Þórdís og tekur fram að hið aukna eftirlit sé í raun það eina jákvæða sem komið hafi út úr birtingu umræddra myndbanda. Þau hafi ekkert að fela.

En hvað fannst þeim um umræðuna?

„Óvægin finnst mér,“ sagði Orri.

„Svolítið sárt,“ sagði Þórdís.

„Það er það. Þessi umfjöllun kemur úr ótrúlegustu en mjög oft er þetta bara upplýsingaleysi. Ástæðan fyrir því að við erum hér er til þess að segja okkar hlið á málinu. Fólk myndar sér skoðun frá því sem það horfir og sér og þegar hún kemur bara úr einni átt…,“ segir Orri sem ítrekar að hann hafi aldrei farið út í þessa búgrein ef honum fyndist það ekki í lagi.

Allir sammála um að vera góðir við dýrin sín

„Það eru allir sammála um það að vera góðir við dýrin sín það leggur enginn af stað í þessa búgrein með þann vilja að verki að stunda dýraníð. Mér finnst eins og stendur í dag greinin hún er undir ströngu eftirliti og vel að því staðið – ég væri ekki í þessu ef ég væri með einhvern móral einu sinni í viku yfir tólf vikna tímabil.“

Þá segir Þórdís það ámælisvert að þingmenn stígi í púlt Alþingis og staðhæfi eitthvað sem stenst ekki skoðun. Frosti spurði Þórdísi hvað hún ætti við:

„Um daginn var rætt í púlti að hundrað hryssur hefðu drepist í ofsaveðri 2019 – því miður féllu hross í því veðri og þessi þingmaður tengir það við þessa búgrein. Það er bara ekki rétt. Þessi hross voru frá allskonar bæjum, yfir allt landið og frá allskyns greinum. Manni finnst það magnað að í pontu inni á Alþingi skuli kallað eftir því að greinin sé bönnuð og dæma eigi alla sem dýraníðinga. Þá spyr maður sig hvort það megi koma fram í pontu og halda fram einhverju sem stenst svo ekki skoðun,“ segir Þórdís og bætir við: „Afföll í þessari búgrein eru bara 0. eitthvað prósent.“

Gríðarlega áhugaverðar umræður um hlið bændanna í þessu eldfima máli. Þetta er eitthvað sem þú getur ekki látið fram hjá þér fara ef þú ætlar að mynda þér skoðun á blóðmerahaldi. Þú getur horft á allt viðtalið á Brotkast.is.

Auglýsing

læk

Instagram