Bláa lónið opnar í dag: Von á hundruðum gesta

Einn vinsælasti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið, opnar allar starfsstöðvar sínar í dag – föstudaginn 16. febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en þar segir að opnunin nær til allra rekstrareininga Bláa lónsins – þar með talið lónið sjálft, Blue Café, veitingastaðanna Lava og Moss, hótelanna Retreat og Silica, Retreat Spa og annarra verslana á svæðinu.

Í tilkynningu frá Bláa lóninu segir enn fremur að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við yfirvöld „…en sem fyrr fylgjum við fyrirmælum þeirra í hvívetna.“

Þá fylgir með tilkynningunni tímabundin leiðarlýsing þar sem hraunflæði olli skemmdum á aðalveginum að Bláa lóninu. Vegurinn sem gestir þurfa að keyra núna nær frá Reykjanesbæ, í gegnum Hafnir, framhjá Reykjanesvita og Gunnuhverum og þaðan í átt að Grindavík þar sem vegurinn tengist svo Bláa lóninu. Hægt er að sjá aksturleiðina hér fyrir neðan á korti.

Myndband af ferðamanni sem gisti í Bláa lóninu þegar það byrjaði að gjósa: „Can you hear that?“

„Athygli gesta er vakin á því að starfsstöðvar okkar eru innan hættusvæðis vegna jarðhræringa samkvæmt mati Veðurstofu Íslands. Komi til stórra jarðskjálfta eða mögulegra eldhræringa verða gestir látnir vita og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Veðurstofa Íslands fylgist gaumgæfilega með virkni á svæðinu og framgangi mála og á sú vöktun sér stað allan sólarhringinn. Starfsemi okkar tekur sem fyrr mið af hættumati og ráðleggingum yfirvalda á hverjum tíma.“

Akstursleiðin að Bláa lóninu.

Auglýsing

læk

Instagram