Bretar samþykkja frumvarp og ætla að senda hælisleitendur og ólöglega innflytjendur til Rúanda

Rúanda frumvarpið svokallaða er gert af Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, en það gerir breskum stjórnvöldum kleift að senda bæði hælisleitendur og þá sem koma til landsins ólöglega, til Rúanda í Afríku. Þar verður sótt um hæli fyrir þá og ef það fæst samþykkt verða hælisleitendur fastir í Rúanda.

Ef umsókn þeirra er hafnað er óvíst hvað tekur við þar sem frumvarpið segir að það megi bara flytja þá aftur til Bretlands en samkvæmt CNN er alls ekki öruggt að Bretar muni taka við þeim aftur ef þeim verður hafnað.

Frumvarpinu er ætlað að draga úr ólöglegri komu flóttamanna til Bretlands og þá sérstaklega þeirra sem koma frá Frakklandi yfir Ermarsundið á litlum bátum, en glæpagengi eru þekkt fyrir að nýta slíkan ferðamáta til að smygla fólki yfir til Bretlands.

Sunak hafði áður reynt að koma frumvarpinu í gegnum breska þingið en hæstiréttur Bretlands hafði dæmt það ólöglegt vegna ástandsins í því landi og að þar væri ekki hægt að ábyrgjast öryggi hælisleitenda. Sunak hét því að koma á opinberu samstarfi með Rúanda til þess að geta sett á sérstök lög sem myndu gera bresku stjórninni mögulegt að flokka Rúanda sem öruggt svæði fyrir hælisleitendur og þau lög urðu að veruleika í janúar á þessu ári þrátt fyrir að ástandið í Rúanda hafi lítið breyst.

Óvíst er hvernig Bretum muni ganga að framfylgja þessum nýju lögum en búist er við að evrópskir dómstólar muni gera athugasemdir við flutning hælisleitenda til Rúanda vegna ástandsins sem þar ríkir.

 

Auglýsing

læk

Instagram