134 milljónum varið í að kynna Undir trénu í Evrópu

134 milljónum verður varið til kynningar á kvikmyndinni Undir trénu í Evrópu. Þetta segir framleiðandinn Grímar Jónsson í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann lýsir einnig yfir ánægju sinni með Evrópusambandið.

Undir trénu, eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson, er dramatísk mynd um nágrannaerjur. Með aðalhlutverk fara þau Steinþór Hróar Steinþórsson, Edda Björgvinsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Selma Björnsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Lára Jóhanna Jónsdóttir. Myndin var frumsýnd í júlí í fyrra og fékk Edduna í febrúar sem besta myndin.

Þá fékk Hafsteinn Gunnar Edduna fyrir leikstjórn myndarinnar og handritið sem hann skrifaðu ásamt Huldari Breiðfjörð. Loks fengu Edda Björgvinsdóttir og Steindi Jr. og Siggi Sigurjóns Edduna fyrir hlutverk sín í myndinni. Myndin hefur einnig verið verðlaunuð víða um heim.

„Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með Evrópusambandið og þau fjölmörgu tækifæri sem samstarf okkar þar hefur veitt mér og verkefnum mínum undanfarin ár,“ segir Grímar á Facebook.

Grímar nefnir sem dæmi að kvikmyndin í samvinnu við pólska sölufyrirtækið New Europe Film Sales hafi fengið samtals 134 milljónir í styrk til að kynna myndina frá Evrópskum samtökum og dreifingarfyrirtækjum. „Ferðalagið er rétt að byrja,“ segir hann og bendir á að myndin verði til dæmis frumsýnd í Póllandi 22. júní næstkomandi.

Auglýsing

læk

Instagram