Afhjúpa átta ára leyndarmál: Hver lak lagi Silvíu?

Heimildaþáttaröðin vinsæla Árið er, íslensk dægurlagasaga í tali og tónum, snýr aftur á Rás 2 um helgina.

Í fyrsta þættinum, Árið er 2006, verður meðal annars farið yfir Eurovisionævintýri Silvíu Nætur, þar sem afhjúpað verður hver lak laginu Til hamingju Ísland á netið áður en lögin í Söngvakeppni sjónvarpsins voru kynnt fyrir landsmönnum.

Gunnlaugur Jónsson, annar umsjónarmanna þáttarins segir þetta hafa verið mjög umdeilt mál á sínum tíma. „Aðrir keppendur voru vægast sagt brjálaðir yfir þessum leka og fóru fram á að Silvíu Nótt yrði vikið úr keppni,“ segir hann.

Á Vísi á sínum tíma lýstu höfundar lagsins harmi sínum yfir að lagið hafi lekið út og sögðu það hafa gerst án síns vilja eða vitundar.

Sögðust þeir vilja gera allt til að keppnin færi fram á grundvelli jafnréttis og heiðarleika og lofuðu að gæta sín betur við áframhaldandi æfingar og upptökur.

Svo fór að Páll Magnússon útvarpsstjóri ákvað að laginu yrði ekki vísað úr keppni. Í kjölfarið lagði Kristján Hreinsson fram stjórnsýslukæru í málinu. Útvarpsráð fjallaði um kæruna á fundi sínum og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kæra ákvörðun útvarpsstjóra til ráðsins.

Silvía Nótt fékk því að taka þátt í undankeppninni sem hún vann. Hún gerði svo allt vitlaust í lokakeppninni í Grikklandi.

Árið er verður á dagskrá í stað Rokklands, sem er á leiðinni í frí. Þáttaröðin var sett á ís í nóvember síðastliðnum í kjölfar uppsagna á RÚV en í sumar hófu umsjónarmennirnir, Gunnlaugur Jónsson og Ásgeir Eyþórsson, undirbúning að nýrri sextán þátta seríu.

Árin 2006-2013 verða tekin fyrir og hvert ár tekið fyrir í tveimur þáttum.

Meðal annarra flytjenda sem koma við sögu í fyrsta þættinum eftir hlé eru m.a. Baggalútur, Lay Low, Ampop, Sigur Rós, Nylon, Nilfisk, Brain Police, Mammút, Hermigervill, Vax, Fræ, Toggi og Eberg sem kom við sögu í fyrstu alþjóðlegu iPhone auglýsingunni.

Þátturinn verður í loftinu á sunnudögum klukkan 16. Ásgeir Eyþórsson segir að mikil sprengja hafi verið í útgefnu íslensku efni uppúr aldamótunum. „Þannig að við brugðum á það ráð að hafa tvo þætti um hvert ár frá árinu 2002 og munum halda því áfram,“ segir hann.

„Eftir 2006 fjölgaði útgefnu íslensku efni enn frekar í kjölfar þess að það var auðveldara fyrir tónlistarmenn að taka sitt efni upp sjálfir og koma því á framfæri á veraldarvefnum og við brugðum á það ráð að lengja Podcastútgáfuna af þættinum þannig að hver þáttur í Hlaðvarpi RÚV verður 20 til 50 mínútum lengri, þar sem boðið verður upp á efni sem kemst ekki fyrir í þættinum auk lengri viðtala, lengri lagabúta, aukalaga og fleira.“

Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af einni einustu frétt.

Auglýsing

læk

Instagram