Allt brjálað á Facebook-síðu Grapevine, ritstjórinn birtir kostulega afsökunarbeiðni

Tímaritið The Reykjavík Grapevine hefur beðist afsökunar á færslu sem birt var á Facebook-síðu tímaritsins í gær. Í færslunni er vísað í frétt um árásir hakkarahópsins Anonymous á íslenskar vefsíður vegna hvalveiða Íslendinga. Færslan var einhvern veginn svona á íslensku:

Við náðum því, Anonymous, þetta er vegna þess að hvalirnir sem við veiðum eru nafnlausir (e. anonymous). Eða kannski er það vegna þess að hvalirnir eru stórir, feitir aumingjar (e. big fat losers) eins og þið.

Gríðarleg reiði greip um sig í kjölfarið á Facebook-síðu Grapevine. Lesendur tímaritsins töldu að með þessu væri Grapevine að taka stöðu með hvalveiðum Íslendinga og mótmæltu því harðlega á meðan aðrir gagnrýndu blaðamennsku Grapevine.

Luca Negroni sagði að íslenskur húmor væri ekki fyndinn, á meðan aðrir sökuðu tímaritið um slæman smekk. Lynn Daly sagðist vera döpur að lesa þetta frá tímaritinu og George Kommisaar sagði að Grapevine hafi einu sinni verið töff.

Fjölmargir hótuðu að hætta að líka við síðu Grapevine og Pola Bukowska notaði tækifærið og hvatti Íslendinga til að hætta að veiða hvali og fara frekar og veiða ISIS.

Afsökunarbeiðni tímaritsins er kostuleg; kaldhæðin og bráðfyndin. „Við sjáum eftir að hafa móðgað hlussur, nörda, hakkara, gómsæta hvali í útrýmingarhættu og/eða notendur Reddit með særandi afstöðu okkar og særandi orðum til að lýsa henni,“ segir ritstjórinn Haukur S. Magnússon.

Jón Benediktsson bar ábyrgð á færslunni. Í afsökunarbeiðninni kemur fram að Jón hafi verið leystur frá störfum, hafi verið gert að sækja reiðistjórnunarnámskeið og sérstakt námskeið í nærgætni.

Grapevine birti því þessa afsökunarbeiðni frá Jóni.

Auglýsing

læk

Instagram