Atli Rafn snýr aftur í Þjóðleikhúsið eftir ársleyfi

Leikarinn Atli Rafn Sigurðarson hefur snúið aftur til starfa í Þjóðleikhúsinu. Þetta kemur fram á Vísi. Atli Rafn var í ársleyfi frá Þjóðleikhúsinu á meðan hann sinnti verkefnum í Borgarleikhúsinu. Honum var hins vegar vikið frá störfum þaðan í desember.

Atli Rafn færði sig á sínum tíma tímabundið yfir í Borgarleikhúsið en til stóð að hann myndi taka þátt í uppsetningu Medeu, sem átti að frumsýna um síðustu jól. Honum var svo sagt upp vegna ásakan í tengslum við #metoo-byltinguna.

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins sagði í samtali við RÚV, í desember að með brottrekstrinum hafi Borgarleikhúsið verið að bregðast við beinum tilkynningum, meðal annars frá starfsfólki. Þá segir hún að Atli Rafn hafi verið upplýstur um hvers eðlis tilkynningarnar voru.

Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri ítrekaði í samtali við Morgunblaðið á dögunum að Atli Rafn hefði ekki brotið af sér í starfi hjá leikhúsinu og engar kvartanir borist vegna starfa hans. „Eins og eðlilegt er þegar maður fær leyfi þá snýr hann til baka að því loknu, nema einhverjar málefnalegar ástæður séu fyrir öðru. Þær eru ekki í málinu,“ sagði hann.

Auglýsing

læk

Instagram