Aukinn stuðningur við þriðja orkupakkann

Stuðningur við þriðja orkupakkann hefur aukist á meðal landsmanna samkvæmt könnun MMR á afstöðu landsmanna til innleiðingar þriðja orkupakka ESB á Íslandi.

Sjá einnig: Örskýring: Að missa svefn yfir þriðja orkupakkanum

Könnunin var framkvæmd dagana 7. til 14. júní 2019 og var heildarfjöldi svarenda 988 einstaklingar, 18 ára og eldri. Alls kváðust 33 prósent þeirra sem tóku afstöðu vera mjög andvíg innleiðingu 3. orkupakkans, 13 prósent frekar andvíg, 20 prósent bæði andvíg og fylgjandi, 15% frekar fylgjandi og 19% mjög fylgjandi. Lítill munur er því á heildarafstöðu frá könnun maímánaðar en líkt og í fyrri könnun tók tæplega þriðjungur þátttakenda (29,6 prósent) ekki afstöðu til spurningarinnar.

Tæplega helmingur landsmanna, um 47 prósent, kvaðst því andvígur því að þriðji orkupakki ESB taki gildi á Íslandi en rúmur þriðjungur kvaðst fylgjandi.

Stuðningur jókst frá síðustu könnu á meðal stuðningsfólks allra ríkisstjórnarflokkanna. Mest var aukningin hjá stuðningsfólki Vinstri grænna en alls kváðust 44 prósent þeirra fylgjandi orkupakkanum, sem er aukning um 18 prósentustig. Þá kváðust 34 prósent stuðningsfólks Framsóknarflokksins og 33 prósent stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans.

Andstaða við þriðja orkupakkann fór minnkandi á meðal stuðningsfólks Miðflokksins frá könnun maímánaðar en 90 prósent þeirra kváðust andvíg innleiðingu hans, sem er 10 prósentustigum minna en við síðustu mælingu. Alls kváðust 75 prósent stuðningsfólks Miðflokksins mjög andvíg innleiðingunni, samanborið við 93% í könnun maímánaðar.

Auglýsing

læk

Instagram