Bára er uppljóstrarinn af Klaustri: „Ég býst enn við að vakna og komast að því að þetta hafi allt verið draumur“

Bára Halldórsdóttir er manneskjan sem tók upp samræður sex þingmanna á Klaustur bar í miðborg Reykjavíkur þann 20. nóvember síðastliðinn. Málið hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Bára stígur fram í viðtali við Stundina í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur beðið fatlaða, hinsegin fólk og konur afsökunar á ummælunum sem féllu á Klaustri bar en Bára tilheyrir öllum þremur hópunum. Hún segir í samtali við Stundina að hún hafi orðið svo sár þegar hún heyrði þingmennina tala saman og að hún hafi ekki trúað því sem hún heyrði.

Sjá einnig: Sjáðu magnað viðtal við Lilju Alfreðsdóttur: „Þeir eru ofbeldismenn“

„Þetta var súrrealískt. Ég býst enn við að vakna og komast að því að þetta hafi allt verið draumur,“ segir hún.

Hún segist ekki hafa trúað eigin skilningarvitum og hafi byrjað að taka upp án þess að hugsa neitt lengra. Því meira sem hún hafi hlustað því reiðari hafi hún orðið.

„Því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi. Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því.“

Hún segir að hún hafi lítið spáð í þingmönnunum fyrr en hún heyrði þau tala um að einhver „kelling“ á þingfundi hefði „aldrei ætlað að hætta að tala,“ svo hafi hún heyrt eitthvað enn grófara og hafi ákveðið að kveika á upptökuforritinu í símanum.

Hún segir að orðræða þingmannana hafi komið á óvart og að samtalið geti varla túlkast sem einkasamtal þar sem hún þurfti að sitja undir því og það hafi heyrst um allan staðinn.

„Ég hugsaði: Ha? Varla tala þeir svona? Ég var ekki búin að hafa kveikt á upptöku nema í stutta stund þegar þeir eru farnir að tala um að ríða einhverjum skrokkum og ég veit ekki hvað – og ég ætlaði ekki að trúa þessu. Við vorum stödd í opnu rými, á stað sem er opinn almenningi, og þau töluðu svo hátt að það heyrðist um allt og meira að segja yfir í hitt rýmið á barnum. Ég hugsaði með mér: Er þetta í alvörunni eðlileg hegðun af hálfu þjóðkjörinna fulltrúa, þingmannanna okkar? Er þetta ekki akkúrat sú orðræða sem við erum nýbúin að vera að berjast gegn með MeToo og svo framvegis, og er bara í lagi að valdamiklir menn sitji og tali svona, hátt og skýrt á kaffihúsi eins og ekkert sé?“

Bára hefur hingað til notað dulnefnið Marvin í samskiptum við fjölmiðla en hefur nú ákveðið að stíga fram undir sínu raunverulega nafni í ítarlegu viðtali sem má finna vef Stundarinnar.

Auglýsing

læk

Instagram