Brock Turner látinn laus eftir þrjá mánuði í fangelsi, nauðgaði rænulausri stúlku á lóð Stanford-háskóla

Brock Turner, fyrrverandi nemandi við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, verður látinn laus úr fangelsi á morgun eftir að hafa afplánað þrjá mánuði, eða helming refsingarinnar. Hann hlaut sex mánaða fangelsisdóm fyrir að nauðga rænulausri konu á lóð skólans.

Tveir sænskir stúdentar komu auga á Turner á bak við ruslagám þar sem hann lá ofan á konunni. Þegar þeir nálguðust stakk hann af en annar mannanna elti hann uppi og hélt honum þangað til lögregla kom og handtók hann.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli. Hámarksrefsing fyrir brotið er 14 ár en saksóknari fór fram á sex ára fangelsi. Dómarinn Aaron Persky hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir að nýta refsirammann ekki betur. Hann sagði meðal annars að hann hefði litið til þess að Turner hefði fengið góð meðmæli, að hann væri afreksmaður íþróttum og væri ekki á sakaskrá. Sagði hann einnig að fangelsisvist myndi hafa veruleg áhrif á hann.

Það sem vakti þó ekki síður athygli var yfirlýsing konunnar sem hún flutti í réttarsalnum. Í yfirlýsingunni, sem var tólf blaðsíður, rifjaði hún meðal annars upp rannsóknina sem hún þurfti að gangast undir til að safna mætti sönnunargögnum. Mörg sýni voru tekin úr leggöngum hennar og endaþarmi. „Leggöngin mín voru smurð með köldu, bláu efni til að athuga hvort það væru sár,“ sagði hún meðal annars.

Sjá einnig: Yfirlýsing ungu konunnar í heild

Turner mun flytja til foreldra sinna sem búa í úthverfi Dayton í Ohio þegar hann losnar úr fangelsinu. Hann verður á skilorði í þrjú ár og fer í gegnum dagskrá sem búin hefur verið til fyrir kynferðisbrotamenn. Hann gæti til að mynda þurft að taka þátt hópastarfi með sálfræðingum þar sem lögð er áhersla á hugræna atferlismeðferð þar sem markmiðið er að takast á við undirliggjandi andfélagslega hegðun.

Mögulega gæti Turner þurft að greina lögreglu frá dvalarstað sinn ásamt fleiri persónulegum upplýsingum á níutíu daga fresti allt sitt líf. Þá má hann ekki búa innan við þrjú hundruð metrum frá stað þar sem börn eru vistuð yfir daginn.

Auglýsing

læk

Instagram