Dagur glímir við sjaldgæfan gigtarsjúkdóm

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindist nýlega með fylgigigt og hefur hafið meðferð við sjúkdóminum. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Fréttablaðinu í dag.

Fylgigigt er gigt sem kemur í kjölfar sýkingar, yfirleitt nokkru eftir að einkenni sýkingarinnar eru gegnin yfir að því er kemur fram á vef Gigtarfélags Íslands. Einkenni fylgigigtar eru meðal annars vöðvaverkir, þreyta og liðbólgur.

Dagur var greindur með sjúkdóminn eftir að hafa rekið sig í rör á flugvellinum í Rostov í Rússlandi þar sem hann var með bróður sínum að fylgjast með íslenska landsliðinu keppa á HM. „Ég haltraði út í vél. Daginn eftir fór ég til Vestmannaeyja til að fylgja stráknum mínum á fótboltamót og varð alltaf verri og verri á haltri mínu milli fótboltavalla. Varð að lokum handviss um að ég væri brotinn,“ segir Dagur en í kjölfarið bólgnaði vinstri úlnliður hans upp og síðan öll höndin.

Eftir að hafa leitað álits lækna var hann fljótt greindur með fylgigigt en hún kemur í kjölfar alvarlegrar sýkingar sem Dagur fékk í kviðholið síðasta haust. Fylgigigtin er síðbúin árás ónæmiskerfisins að sögn Dags og flakkar á milli liða og getur lagst á ýmis líffæri.

Hann er búinn að vera í miklum rannsóknum og meðhöndlun síðan hann greindist fyrr í sumar og er byrjaður í kröftugri lyfjameðferð til að reyna að slá sjúkdóminn niður. Hann getur þurft að vera á sterkum lyfjum í að minnsta kosti eitt og hálft eða tvö ár.

Dagur segist ekki vera viss um hvaða áhrif fylgigtin hafi til langs tíma eða hvaða áhrif hún mun hafa á starfið hans sem borgarstjóra. Áhrif fylgigitarinnar eru fyrst og fremst verkir og á Dagur því erfitt með að hreyfa sig þegar bólgurnar eru miklar og er farinn að ganga með staf. „Ég stefni að því að fara til vinnu eftir sumarleyfi, þó ég fari sjálfsagt ekki jafn hratt yfir og áður“

Hann segir það áfall að greinast með sjúkdóminn. „Fyrst var maður í hálfgerðri afneitun, maður tengir það ekki alveg við sjálfsmyndina að geta ekki sofið fyrir verkjum í bólgnum liðum. Þetta er bara nýr veruleiki sem ég þarf að bera virðingu fyrir og taka föstum tökum.“

Auglýsing

læk

Instagram