Darri komst ekki á eigin frumsýningu: Upptekinn í Hollywood

Kvikmyndin Borgríki 2: Blóð hraustra manna var sýnd í troðfullum stóra sal Háskólabíóis í gær. Myndin verður svo frumsýnd í kvikmyndahúsum á morgun.

Darri Ingólfsson leikur eitt af aðalhlutverkunum í myndinni en komst ekki á sýninguna í gær. Kristín Andrea Þórðardóttir, ein af framleiðendum, myndarinnar sagði að Darri væri upptekinn við tökur á þáttunum Stalker í Los Angeles.

Fyrsta þáttaröð af Stalker er nú sýnd á Stöð 2 en Dylan McDermott og Maggie Q eru í aðalhlutverkum. Darri var í viðtali í Fréttatímanum á dögunum en þar kom fram að hann leikur einn af vondu köllunum í Stalker.

„Ég var að skjóta í gær. Þetta voru frekar „intense“ senur,“ sagði hann í viðtali við Fréttatímann. Darri lék einnig eftirminnilega vonda kallinn í áttundu þáttaröðinni af Dexter.

Spurður af hverju en leikur svona oft vonda kallinn segist Darri ekki vita það. „Ég er nú nokkuð góðlegur að sjá. Kannski fæ ég útrás fyrir hina hliðina á mér í þessum prufum.“

Í Borgríki 2 fer Darri með hlutverk Hannesar, sem er yfirmaður innra eftirlits lögreglunnar. Til að ráða niðurlögum stórra glæpasamtaka ákveður hann að rannsaka Margeir, spilltan yfirmann í fíkniefnadeild lögreglunnar, eftir að hafa fengið ábendingu frá Gunnari, fyrrum glæpaforingja, sem situr í fangelsi.

Til gamans má geta að í Fréttatímanum kom einnig fram að Darri fór í prufu fyrir kvikmyndina Gone Girl, sem var frumsýnd í síðustu viku, og skartar Ben Affleck í aðalhlutverki.

Ég var voðalega spenntur fyrir þessu handriti og hugsaði með mér að ég gæti átt séns í þetta hlutverk enda stóð ég mig vel í prufunum, að mínu mati. Svo liðu einhverjir mánuðir og maður gleymir þessu. Þessi mynd var að koma í bíó um daginn og kallast Gone Girl. Þá sá ég að Neil Patrick Harris hafði fengið hlutverkið. Ég átti aldrei séns!

Borgríki 2 er sýnd í Laugarásbíói, Smárabíói og í Borgarbíói á Akureyri. Smelltu hér til að kaupa miða.

Auglýsing

læk

Instagram