Drengir Eddu Bjarkar hamingjusamir í Noregi: Höfðu ekki sést í hálfan mánuð

Miklir fagnaðarfundir áttu sér í flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli um miðjan dag í gær þegar þrír drengir hittu föður sinn í fyrsta skiptið í tæp tvö ár. Samkvæmt starfsmanni í flugstöðinni var það tilfinningaþrungin stund þegar synir Eddu Bjarkar Arnardóttur hlupu í fang föður síns áður en þeir héldu svo af stað með flugi til Noregs.

„Ég fór bara að gráta, eins og held ég allir sem vissu hvað var í gangi þarna í brottfararsalnum,“ sagði starfsmaðurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Störfuðu með leynd vegna leka

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu keyrði drengina til Keflavíkur með forgangsakstri en þar hafði faðir þeirra beðið frétta en var orðinn úrkula vonar á að fá að hitta drengina sína fyrir jól. Samkvæmt heimildum Nútímans innan úr lögreglunni var mál drengjanna þriggja búið að skipta upp embættinu í tvö lið – þar voru starfsmenn sem láku upplýsingum til vina og vandamanna Eddu Bjarkar og höfðu mikla samúð með málstað hennar en svo hópur starfsmanna sem hélt leitinni linnulaust áfram en með mikilli leynd frá miðjum desember þar sem grunur um leka hafði ítrekað komið upp. Síðarnefndi hópurinn fann svo drengina í gær.

Faðir drengjanna. MYND: Kjetil Bortelid Mæland/Nettavisen

Heimildarmaður Nútímans sem þekkir vel til fjölskyldunnar segir að þeim hafi verið skipt upp – eldri bræðurnir tveir höfðu þá verið aðskildir frá þeim yngsta og höfðu ekki sést í hálfan mánuð í gær þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði loksins upp á þeim. Það voru því ekki bara fagnaðarfundir þegar drengirnir hittu föður sinn heldur líka þegar þeir loksins hittust á ný.

Sá yngsti fannst í gær um miðjan dag heima hjá ömmu vinar síns og segja heimildir Nútímans að bæði systir hennar Eddu Bjarkar, Ragnheiður Arnardóttir, og lögfræðingur Eddu, Hildur Sólveig Pétursdóttir, hafi að stærstum hluta séð um að skipuleggja feluleikinn sem farið var í til þess að reyna að koma í veg fyrir að faðir drengjanna fengi að hitta þá.

Komið fyrir hjá ókunnugum

Heimildarmaður Nútímans í lögreglunni segir að í byrjun mánaðarins hafi verið ákveðið að setja á laggirnar þéttan hóp lögreglumanna sem væri ólíklegur til þess að leka upplýsingum um leitina til vandamanna Eddu Bjarkar. Sótt hafi verið um símhlerunarheimild í kjölfarið. Það hafi svo verið upplýsingarnar úr þeirri símhlerun sem hafi leitt til þess að óeinkennisklæddur lögreglumaður fann eldri bræðurna í bifreið Ragnheiðar sem var handtekinn í kjölfarið. Þá hafi lögreglumenn einnig fengið það staðfest með umræddum símhlerunum að lögmaður Eddu Bjarkar, Hildur Sólveig, hafi haft vitneskju um það hvar drengirnir væru faldir – þrátt fyrir að hafa ítrekað sagt það í fjölmiðlum að hún hafi ekki haft hugmynd um hvar þeir væru.

Sömu upplýsingar leiddu svo til þess að sá yngsti fannst í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu en honum hafði þá verið komið fyrir hjá ókunnugum – ömmu vinar síns.

Siðlaust sálfræðimat

Nútíminn hefur á undanförnum vikum fjallað ítarlega um mál Eddu Bjarkar sem fyrir tæpum tveimur árum rændi börnum sínum frá Noregi og flaug með í einkaflugvél til Íslands. Ljóst er að nokkur fjöldi einstaklinga kom að því að bæði ræna drengjunum frá Noregi og fela þá á Íslandi.

Edda Björk hefur haldið því fram í fjölmiðlum að drengirnir vildu ekki fara til föður síns. Samkvæmt heimildum Nútímans á það við engin rök að styðjast – þeir séu mjög glaðir og hafa leikið sér saman nánast sleitulaust frá því þeir hittust í gær. Þá hlakkar til að hitta vini sína í Noregi sem þeir hafa ekki séð í tæp tvö ár.

Fjallað var um málið í norskum miðlum.

Hildur Sólveig og Ragnheiður gengu ansi langt í því að fá það skjalfest að drengirnir vildu ekki vera hjá föður sínum – það gerðu þær með því að fá sálfræðingin Ágústu Gunnarsdóttur til þess að framkvæma mat á þeim í byrjun desember. Matið var algjörlega siðlaust enda lá ekkert samþykki fyrir því hjá föður þeirra, forsjáraðila drengjanna. Umrætt mat átti svo að nota til þess að reyna að stöðva aðfaragerð sýslumannsins í Reykjavík og leit lögreglunnar.

Matið er hinsvegar byggt á blekkingum og broti á siðareglum Sálfræðingafélags Íslands og hefur það verið kært til nefndarinnar.

Haft áhrif á hug drengjanna til föður

Nútíminn reyndi að ræða umrætt mat við Ágústu en hún skellti á blaðamann þegar eftir því var leitað. Sama dag hélt Hildur Sólveig því fram að hún vissi ekki hvar börnin væru þrátt fyrir að hafa skipulagt framkvæmdina í kringum matið og séð til þess að þeir myndu mæta á fund Ágústu með fjarfundarbúnaði. Eftir að umrætt mat hafi verið framkvæmt þá var bræðrunum skipt upp og sáu ekki hvorn annan aftur.

Því ber að halda til haga að Nútíminn fjallaði um vilja drengjanna eins og þeir lýstu honum sjálfir við sérfræðinga í Noregi áður en Edda Björk rændi þeim og flaug með til Íslands. Upplýsingar um það komu fram í réttarskjölum sem Nútíminn lét þýða og birti á dögunum í heild sinni. Þá taldi dómurinn enn fremur að mjög líklegt væri að Edda Björk myndi reyna að hafa áhrif á álit drengjanna á föður sínum ef hún fengi að vera með þeim eftirlitslaus. Miðað við fréttir gærdagsins og heimildir Nútímans virðast þær áhyggjur dómarans hafa verið á rökum reistar.

Skýrt dæmi um foreldraútilokun

„Þeir hafa allir talað við matsaðila og sagt skýrt að þeir vilji halda áfram að búa hjá föður í Noregi. Þessu héldu þeir ennþá staðfastlega fram þegar matsmaður talaði við þá að nýju, stuttu áður en aðalmálsmeðferð hófst,“ segir í norska dómnum. Núna – þegar drengirnir höfðu verið í umsjá móður sinnar í yfir 20 mánuði þá hafði afstaða þeirra breyst og í raun tekið algjöra U-beygju. Þeir sem þekkja til mála sem tengjast foreldraútilokun segja mál Eddu Bjarkar eitt skýrasta dæmið um slíkt í íslensku samfélagi.

Því ber að halda til haga að allir þeir sem komu að máli drengjanna þriggja og leitinni að þeim – barnaverndarnefnd, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn sýslumannsins í Reykjavík – voru að fylgja lögum í landinu og þeim dómum sem höfðu verið felldir á öllum dómsstigum landsins.

Auglýsing

læk

Instagram