„Ef Jón Baldvin er ósáttur má hann senda mér erótískt bréf“

Ofbeldi gegn konum er í forgrunni í Kötu, nýjustu skáldsögu Steinars Braga. Samkvæmt vef forlagsins er Kata saga um glæp og eftirköst hans, um óskiljanlega grimmd, ærandi sorg og stríðið milli kynjanna þar sem einungis annað þeirra hefur verið gerandi – þangað til núna.

Steinar Bragi er í viðtali á vefnum Starafugl. Þar kemur fram að frægt fólk birtist undir nafni í bókinni. Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson er til dæmis persóna í bókinni ásamt því að Jón Baldvin Hannibalsson fær „félagslega greiningu“ samkvæmt Starafugli.

Steinar Bragi segir í viðtalinu að hann geri greinarmun á „opinberum“ persónum og þeim sem eru það ekki. Hann leyfir þeim fyrrnefndu að halda nöfnunum sínum:

Ef Jón Baldvin er ósáttur má hann senda mér erótískt bréf. Aðrar opinberar persónur eru yfirhöfuð ekki þær sjálfar heldur innblástur að sögupersónum; þær síðarnefndu eru þá gjarnan samsettar úr fleiri en einni fyrirmynd og því augljóst að kokka verður upp ný nöfn – og um leið eru mér settar lagalegar skorður og í sumum tilfellum móralskar. Á stöku stað er verið að ræða mál sem eru of persónuleg til að ég sjái mér fært að láta fólk koma fram undir nafni – að fólk geri það sjálft í dagblöðum gefur mér ekkert leyfi til að loka það inni í skáldsögu sem yfirleitt hefur mun lengri endingartíma en dagblöð.

Þá fær rithöfundurinn Jón Kalmann á baukinn í bókinni. Steinar Bragi segir að honum þyki vænt um allt fólk og að hann vilji því vel: „En eflaust særi ég stundum aðra, hver sem ásetningurinn er; og já, ég hef vafalaust sært fólk í sumum af bókunum mínum,“ segir hann.

„Þegar höfundur siglir litla bátfleyinu sínu út á hið grimma haf skáldsögunnar lokast hann – þegar vel tekst til – inni af einbeitingu, slítandi þráhyggjum og ógleði. Kannski eru þessar raunpersónuvísanir mínar tilraun til að varpa akkeri um stund, bergja af þögn himinsins og tengja mig við veröldina og dagblöðin? Eða bara grimmd sem ég ræð ekki við. Mér er hugleikið að sætta öfgar en rata þá bara í nýjar. Ég bið alla afsökunar sem ég hef sært.“

Smelltu hér til að lesa viðtalið á vef Starafugls.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af einni einustu frétt.

Auglýsing

læk

Instagram