Eftirsóknarverðir skór lenda í Reykjavík: „Vinir okkar ekki sáttir með að fá ekki forkaupsrétt“

Áhugamenn um strigaskó bíða spenntir eftir gríðarlega eftirsóknaverðum skóm sem eru væntanlegir í Húrra Reykjavík á laugardaginn klukkan 11. Eigendur verslunarinnar hafa ekki fengið frið undanfarnar vikur og búast má við að menn leggi mikið á sig til að tryggja sér par.

Sjá einnig: Húrra Reykjavík kemst á eftirsóknarverðan lista hjá Nike, 14 yfirmenn skoðuðu verslunina

Skórnir sem um ræðir eru sérstök 30 ára afmælisútgáfa af Air Jordan 11 72-10. Nafnið á skónum er vísun í mettímabil Chicago Bulls í NBA-deildinni 1995 til 1996 þar sem liðið sigraði 72 leiki en tapaði aðeins 10. Micheal Jordan var þá valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar og metið stendur ennþá.

„Þetta er líklega stærsta Jordan-útgáfa ársins, það fer ekki á milli mála. Menn eru búnir að tala um þessa skó í langan tíma eða allt frá því að fyrstu myndir láku á netið fyrir mörgum mánuðum. Það er mikil eftirvænting í gangi,“ segir Sindri Jensson, annar eigenda Húrra Reykjavíkur.

Aðeins átta pör eru í boði, eitt par í hverri stærð frá 41 til 46, og Sindri er grjótharður á gömlu góðu reglunni: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Margir vinir okkar eru ekki sáttir með að fá ekki forkaupsrétt, við erum mjög harðir á fyrstur kemur, fyrstur fær.

Sindri segir að áhuginn á sé mikill; pósthólfið á Facebook logi ásamt því að margir hringi í verslunina að spyrjast fyrir.

„Í framtíðinni ætlum við að skoða einhvers konar lotterí þar sem fólk sækir um að kaupa á netinu og svo drögum við út hverjir fá skóna,“ segir hann. „Það fyrirkomulag er mjög þekkt erlendis þar sem verslanir vilja ekki fá tjöld og raðir fyrir utan hjá sér í marga daga.“

Eins og Nútíminn greindi frá í október þá er Húrra Reykjavík komin á lista yfir verslanir í Evrópu sem hafa aðgang að svokölluðum Quick Strike-skóm frá Nike. Slíkir skór koma á markað með skömmum fyrirvara og verslanir þurfa sérstakt leyfi til að selja skóna sem eru ávallt seldir í afar takmörkuðu magni.

Umræddir skór verða seldir í Húrra Reykjavík á laugardaginn en útgáfu þeirra var flýtt um viku eða til 12. desember. „Það hefði auðvitað verið gaman vera með í opinberum útgáfudegi en skórnir voru þegar komnir í skip þegar útgáfudeginum var breytt,“ segir Sindri.

„Okkur finnst því mjög líklegt að þeir séu uppseldir á flestum stöðum nú þegar en svona útgáfur eru gull í augum re-sellera sem eru alltaf að verða algengari og algengari.“

Röð myndaðist fyrir utan verslunina í síðustu viku þegar aðrir Jordan-skór voru seldir: Jordan 8 Aqua. „Hörðustu menn voru þá búnir að sitja í tröppunum hjá okkur alla nóttina og við reiknum með enn þá meiri aðsókn núna,“ segir Sindri.

Auglýsing

læk

Instagram