Eggjakisa varð fræg eftir umfjöllun Kastljóss: „Eggjakisa fer sínar eigin leiðir í lífinu“

Eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar leiða ýmislegt annað í ljós en slæman aðbúnað hjá Brúneggjum, sem Kastljós fjallaði um fyrr í vikunni. Læðan Eggjakisa er aukahlutverki í skýrslu um Grænegg ehf. sem framleiðir vistvæn egg fyrir Bónus.

Búið er í Sveinbjarnargerði í Eyjafirði en Eggjakisa er 15 ára gömul og vinnur á búinu fyrir mjólk og ost.

Í eftirlitskýrslu frá því í desember árið 2012 kemur fram að dularfullur köttur eigi sér ból í eggjapökkunarstöðinni. „Ekki heimilt,” segir í skýrslunni. Grænegg sendu þá áætlun um úrbætur þar sem fram kemur að kötturinn eigi sér ekki lengur ból í pökkunarhúsi.

Þremur árum síðar var forsvarsmönnum Græneggjum bent á að kötturinn yrði að fara. Í svari frá Græneggjum km fram að kötturinn hafi ávalt verið á búinu og að ekki hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en nú.

„Þess ber að geta að undirritaðir telja köttinn eina bestu meindýravörn sem við höfum, fyrir bæði fugla og mýs,“ segir í svarinu.

Til að koma til móts við breytt regluverk verður með úrbótum skilið betur á milli hreins og óhreins svæðis og á endanum hefur kötturinn þá ekki lengur aðgang inn á hreina svæðið. Óskum við því hér með eftir því að fá aðlögun frá þessu á meðan að umræddur köttur lifir, sem nú er orðinn gamall.

Í svari héraðsdýralæknis segir meðal annars að ef tillögur Græneggja gangi eftir verði ekki gerð athugasemd við þetta atriði svo lengi sem kötturinn lifir og nýr köttur leysi hann þá ekki af í starfinu.

Grænegg birtu svo færslu um Eggjakisu á Facebook í dag. „Hún kom upphaflega í heimsókn frá næsta bæ sem kettlingur en fannst tilvalið að setjast að á eggjabúinu,“ segir þar.

„Hún er afar geðgóð og er mikið fyrir kelerí. Eggjakisa fer sínar eigin leiðir í lífinu, kemur og fer eins og henni sýnist. Svo sannarlega hefur hún unnið fyrir kaupinu sínu og var fljótt gerð að yfirmanni meindýravarna. Hefur hún gengt því hlutverki með sóma og fengið mjólk og ost að launum.“

Auglýsing

læk

Instagram