Fjórum fréttamönnum stefnt vegna Hlíðamálsins, farið fram á milljónir í miskabætur

Tveir menn sem voru sakaðir um nauðgun í Hlíðamálinu svokallaða hafa stefnt fjórum fréttamönnum á fréttastofu 365. Þeir fara hvor um sig fram á 12,5 milljónir í miskabætur vegna ítrekaðra ærumeiðandi ummæla og vegna friðarbrots í fréttum sem miðlar 365 sögðu af málinu. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en samkvæmt fréttum Fréttablaðsins voru mennirnir sakaðir um hrottalegt ofbeldi. Ríkissaksóknari felldi niður málið gegn mönnunum tveimur í júní í fyrra og staðfesti þar með ákvörðun héraðssaksóknara.

Í frétt RÚV kemur fram að öðrum manninum hafi verið gert að hætta námi við Háskólann í Reykjavík vegna málsins og að hinn hafi misst vinnuna. Þá kemur fram að hvorugur hafi átt afturkvæmt í fyrra starf.

Í stefnunni, sem RÚV hefur undir höndum, eru talin upp 32 ummæli sem mennirnir tveir krefjast að verði dæmd dauð og ómerk. Ummælin birtust í Fréttablaðinu, á Vísi eða voru flutt í fréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2 dagana 5. til 9. nóvember árið 2015.

Þá kemur fram að fréttamaður 365 hafi farið að heimili annars mannsins og flutt frétt að hluta úr stigagangi heimilis hans og birt myndir af húsinu.

RÚV greinir frá því að fréttamennirnir hafi hafnað boði um að ljúka málinu utan réttar.

Auglýsing

læk

Instagram