Google fær til sín íslenska sjálfboðaliða, leikarar ósáttir vegna nísku tæknirisans

Google hefur fengið til liðs við sig tuttugu íslenska sjálfboðaliða til að vinna með fyrirtækinu að íslenskri máltækni. Sjálfboðaliðarnir verða fengnir til að lesa inn um hundrað og tuttugu þúsund íslensk orð og í kjölfarið verður ráðist í að mynda tvær raddir; karlmanns- og kvenmannsrödd. Þetta kemur fram á Vísi.

Úlfar Erlingsson, doktor í tölvunarfræði sem starfar við öryggismál hjá Google, heldur utan um verkefnið hér á landi. Hann auglýsti eftir sjálfboðaliðum til að taka að sér lesturinn og meðal þeirra sem leitað var til voru leikarar í hópi Félags íslenskra leikara á Facebook.

Í auglýsingunni frá Úlfi kom fram að mikilvægt væri að þeir sem lesi inn séu með góða, jafna, skýrmælta þulurödd og kunni að beita röddinni. Þá kom fram að hver og einn þurfi að leggja til um klukkutíma í vinnu.

Óánægju gætir á meðal leikara þar sem risafyrirtæki á borð við Google greiðir ekki fyrir vinnu þeirra sem sjá um lesturinn. Leikkonan Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir tók málið upp á Facebook eftir að hún sá auglýsinguna frá Úlfi. Hún segir að Google ætti að sjálfsögðu að greiða fyrir vinnuna. „Það er ekki eins og það séu greiddar svimandi háar fjárhæðir fyrir lestur hvort sem er,“ segir hún.

Inni í lokuðum hóp leikara á Facebook fóru fram umræður um málið. Þar virtist fólk sammála um að ásetningurinn væri góður en velti fyrir sér hvers vegna Google getur ekki greitt fyrir vinnuna. Einn talaði um að það væri algjörlega fáránlegt að greiða fólki ekki fyrir vinnuna.

Úlfur segir á Vísi að leikarar séu venjulega fengnir til verksins þegar svona tölvurödd er búin til.

Þeim er borgað og það tekur margar vikur, bara eins og talsetning fyrir bíómyndir. Sú leið svarar hins vegar ekki kostnaði fyrir sjaldgæfari tungumál.  Því hefur Google þróað ódýrar aðferðir sem henta vel í sjálfboðavinnu til að búa til tölvuraddir fyrir minni málsvæði.

Google er þriðja verðmætasta vörumerki heims. Aðeins Apple og Microsoft eru verðmætari. Google er metið á um 367 milljarða Bandaríkjadali, eða um 46.656.710.000.000 íslenskar krónur.

Sem dæmi um umfangið þá högnuðust stofnendur Google, Larry Page og Sergey Brin, um fjóra milljarða Bandaríkjadala hvor á einum degi í sumar, þegar verð á hlutabréfum tæknirisans hækkuðu á hlutabréfamörkuðum.

Um er að ræða mestu aukningu auðs á einum degi í sögu Bandaríkjanna, en verðmæti Google hækkaði um 51 milljarð Bandaríkjadala sama daginn.

Auglýsing

læk

Instagram