Guðni forseti var kallaður hommi þegar hann var lítill: Berst nú fyrir mannréttindum sem verndari Samtakanna 78

Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands segir að hann hafi verið kallaður hommi þegar hann var lítill drengur vegna þess að hann deildi nafni með formanni Samtakanna 78 á þeim tíma, Guðna Baldurssyni. Á þeim tíma hafi þetta verið uppnefni en í dag séu breyttir tímar. Guðni Th er nú verndari í Samtökunum sem urðu 40 ára í júní. Hann var í ítarlegu viðtali hjá GayIceland í tilefni Hinsegin daga sem hófust í Reykjavík í vikunni.

Guðni segist ætla að mæta á opnunarhátíð Hinsegin daga í Háskólabíó í dag en því miður komist hann ekki á Gleðigönguna á laugardaginn þar sem hann verði ekki í Reykjavík. Guðni var á sínum tíma fyrsti forsetinn í heiminum til þess að taka opinberlega þátt í gleðigöngu.

„Í mínum huga var það mjög eðlileg og gleðileg ákvörðun að taka þátt í göngunni fyrir tveimur árum. Ég styð mannréttindi, fjölbreytileika, frelsi til að tjá sig, elska og trúa því sem maður vill, eða ekki trúa neinu,” segir Guðni við GayIceland.

Hann segist hafa tekið þátt í göngunni áður en hann varð forseti og hafi ekki ætlað að hætta því bara við það eitt að fá nýtt hlutverk.

Hann tekur hlutverki sínu sem verndari Samtakanna 78 alvarlega. Hann er einnig verndari í Rauða Krossinum, Skátunum og fleiri samtökum hér á landi. Hann segir að sem verndari Samtakanna 78 vonist hann til þess að leggja áherslu á mikilvægi mannréttinda í okkar samfélagi.

Hann segir að það sé mikilvægt að halda baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks áfram líkt og allri baráttu fyrir mannréttindum.

Aðspurður segir Guðni að hann muni tjá sig um þessi málefni erlendis ef hann fær tækifæri til þess.

„En eins og ég segi þá er ekki hægt að bjarga öllum heiminum með einni yfirlýsingu, einni athugasemd eða einu „like-i” á Facebook. Það þarf að hugsa um hvort að gjörðir manns hafi varanleg áhrif til hins betra. Ég mun sannarlega ekki vera feiminn við að tjá mig um það sem ég hef verið að tala um hér,” segir hann.

Ég trúi á mikilvægi mannréttinda fyrir alla í samfélaginu og veröldin verður betri staður þegar það verður ríkjandi skoðun.

Guðni segir að Gleðigangan hafi mikla þýðingu fyrir sig. Hann segir að hún sé tákn fyrir mikilvægi frelsis, virðingar og fjölbreytni í samfélaginu.

Viðtalið við Guðna má lesa í heild sinni með því að smella hér. Hápunktur Hinsegin daga er á laugardaginn en þá fer fram Gleðigangan. Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín. Gangan leggur af stað frá gatnamótum Sæbrautar og Faxagötu stundvíslega klukkan tvö.

Auglýsing

læk

Instagram