Gunnar Nelson berst í Las Vegas

Bardagakappinn Gunnar Nelson berst við hinn breska John Hathaway í Las Vegas í júlí. Vandræðagemlingurinn Conor McGregor berst um titil á sama kvöldi en þetta er stærsta bardagakvöld ársins í UFC.

Bardagarnir fara fram 11. júlí en tveir titilbardagar fara fram þetta kvöld: Aðalbardaginn er viðureign Írans Conor McGregor og Brasilíumannsins Jose Aldo um heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt. Sama kvöld fer fram titilbardagi Robbie Lawler og Rory McDonald í veltivigtinni, þyngdarflokki Gunnars.

Conor McGregor og Gunnar eru vinir og æfa mikið saman. McGregor hefur til að mynda oft komið hingað til lands og undirbúið sig fyrir bardaga í bardagaklúbbnum Mjölni.

Haraldur Nelson, pabbi Gunnars og umboðsmaður, segir í samtali við Vísi að þetta sé stærsta bardagakvöld ársins.

Það er frekar ólíklegt að bardagi Gunnars verði á aðalkortinu en hann verður tekinn inn í Fox-útsendinguna og sýndur um allan heim. Þetta er stór veltivigtari en Gunni er nú vanur að mæta stórum strákum. Hann kom inn sem glímumaður en bardagarnir hans hafa verið meira standandi. Hann er með góð hné og nýtir styrkleika sína vel.

John Hathaway á að baki 17 sigra og tvö töp í MMA. Gunnar hefur unnið 13 bardaga, tapað einum og gert eitt jafntefli. Síðast þegar Gunnar barðist tapaði hann fyrir Rick Story í Stokkhólmi. Hathaway hefur unnið Story.

Bardagi Conor McGregor og Jose Aldo hefur vakið gríðarlega athygli, aðallega vegna látanna í McGregor. Hann hrifsaði til dæmis beltið af Aldo á blaðamannafundi í vikunni.

Auglýsing

læk

Instagram