Auglýsing

Hæstaréttarlögmaður gagnrýnir harðlega bann við nýskráningu bensín- og díselbíla: „Er ríkisstjórnin orðin hringlandi galin?“

„Fjórir ráðherrar kynntu í gær harðdrægari áætlun í loftslagsmálum, en áður hefur sést, gegn hagsmunum neytenda og framleiðenda,“ skrifaði hæstaréttarlögmaðurinn og fyrrverandi þingmaðurinn Jón Magnússon í vikunni og á þar við ákvörðun ríkistjórnarinnar að banna nýskráningu bensín- og díselbíla eftir árið 2028.

„Eftir einn kaldasta vetur í manna minnum og vorhret, sem á sér ekki sinn líka, þá finnst ríkisstjórninni það helst verða til varnar verða vorum sóma, að banna fólki margt af því sem hingað til hefur verið talið sjálfsagt og fellur undir eðlileg mannréttindi og valfrelsi fólks í lýðræðislandi“

Ákvörðunin er vægt til orða tekið umdeild og hafa fjölmargir tjáð sig um hana á samfélagsmiðlum á undanförnum dögum. Þar er Jón engin undantekning en hann segir ákvörðunina koma til með að lenda harðast á neytendum.

„Ríkisstjórnin er þar með kominn í hóp þeirra sem trúa skilyrðis- og vitsmunalaust á að loftslagsguðinn sé reiður og það sé nauðsynlegt að friða hann með fórnum sem lenda alltaf harðast á neytendum. Eftir einn kaldasta vetur í manna minnum og vorhret, sem á sér ekki sinn líka, þá finnst ríkisstjórninni það helst verða til varnar verða vorum sóma, að banna fólki margt af því sem hingað til hefur verið talið sjálfsagt og fellur undir eðlileg mannréttindi og valfrelsi fólks í lýðræðislandi,“ skrifaði Jón sem sótti fund í Sjálfstæðishúsinu fyrir fáeinum dögum og horfði þar á málverk af fyrrum formönnum flokksins, þeim Ólafi Thors, Bjarna Benediktssyni og Jóhanni Hafstein.

Víkja rækilega frá grundvallarstefnu

„…sem ég var svo lánssamur að kynnast og þótti mikið til þeirra allra koma. Aldrei hefði þessum mönnum dottið í hug að binda svona klyfjar á þjóðina eða víkja svo rækilega frá grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins um sókn til betri lífskjara, einstaklings- og athafnafrelsis og valfrelsi fólks og þessi volaða ríkisstjórn stendur nú fyrir og boðar.“

Þá spyr Jón að lokum hvort forystu Sjálfstæðisflokksins sé bjargandi.

„Er virkilega svo komið, að forusta Sjálfstæðisflokksins sé svo kyrfilega gengin í loftslagsbjörgin, að henni sé og verði ekki við bjargandi?“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing