Heilluðust af skegginu á Sigga Sigurjóns

Skeggið á Sigga Sigurjóns var það sem kveikti hugmyndina að því að hann var fenginn til að leika í textamyndbandi Of Monsters and Men. Þetta kom fram í viðtali við hljómsveitina í þætti Rúnars Róbertssonar á Bylgjunni í vikunni. Myndbandið er við lagið Crystals, sem kemur út á annarri breiðskífu hljómsveitarinnar í sumar.

Sjá einnig: Siggi Sigurjóns minnir fólk á Robin Williams

„Hann er flottastur,“ sagði Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona Of Monsters and Men, um Sigga. Söngvarinn Ragnar Þórhallsson sagði að hugmyndin hafi verið að fá einhvern til að syngja lagið af lífi og sál. „Og útlitið á honum er góður contrast við röddina hennar Nönnu. Svo er hann svo viðkunnanlegur gæi.“

Nanna tók undir það. „Hann er svo flottur gæi. Þetta er hugmynd sem kom rosalega skyndilega. Bara allt í einu,“ sagði hún.

Hann er með svo flott skegg og við Gúgluðum hann og sáum skeggið og urðum að fá hann. Svo stóð hann sig alveg ótrúlega vel. Hann hafði ekki mikinn fyrirvara en gerði þetta alveg ótrúlega vel.

Myndbandið nálgast nú milljón áhorf á Youtube og aðdáendur Of Monsters and Men víða um heim virðast vera ánægðir með lagið og myndbandið, ef marka má ummælakerfið á Youtube.

Auglýsing

læk

Instagram