Hjörtur Jóhann tók við hlutverki Atla Rafns í Borgarleikhúsinu

Leikarinn Hjörtur Jóhann Jónsson setti sig inn í burðarhlutverk sýningarinnar Medeu á aðeins 14 vinnudögum. Sýningin var frumsýnd í Borgarleikhúsinu í gær en Hjörtur tók við hlutverki sem Atli Rafn Sigurðsson átti að fara með. Þetta kemur fram á Vísi.

Til stóð að frumsýna Medeu um jólin en því var frestað eftir að Atla Rafni var vikið frá störfum í desember vegna ásakan í tengslum við Metoo-byltinguna. Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, sagði að einhugur hafi verið um ákvörðunina innan leikhússins.

„Ég var að bregðast við beinum tilkynningum, meðal annars frá starfsfólki, sem hafa borist beint til leikhússtjóra. Leikhússtjóri, framkvæmdastjóri og stjórn Leikfélags Reykjavíkur voru einhuga um þessa ákvörðun og hún var tekin eftir mikla yfirlegu og að vandlega ígrunduðu máli,“ sagði hún.

Hjörtur Jóhann segist í samtali við Vísi lítið hafa hugsað um aðstæðurnar sem hann kom inn í verkið. „Ég einbeitti mér aðallega bara að því að ná utan um þetta allt saman,“ segir hann á Vísi.

„Ég reyndi viljandi að pæla ekki í því. Þetta er svo frábær hópur. Þegar eitthvað er krefjandi á góðan hátt og skemmtilegt þá er ekkert erfitt.“

Auglýsing

læk

Instagram