Íslendingar flengja og binda: Kaupa hjálpartækin í Bauhaus og BYKO

Sala á hjálpartækjum ástarlífsins hefur stóraukist hér á landi í kjölfar útgáfu bókarinnar 50 Shades of Grey. Ásamt því að kaupa tækin í sérstökum erótískum verslunum verslar fólk reipi, teip, dragbönd og fleira í byggingavörverslunum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Kvikmynd byggð á 50 Shades of Grey verður frumsýnd hér á landi um helgina. Kvalarlosti er rauður þráður í gegnum söguna og svo virðist sem fólk sé opnara en áður fyrir því að prófa sig áfram með fjölbreytt tól í kynlífinu.

Magnús Hákonarson, formaður BDSM á Íslandi, bendir á í Fréttablaðinu að fólk sæki í auknum mæli í byggingavöruverslanir á borð við Bauhaus og BYKO eftir hjálpartækjum innblásnum af bókinni. Þar finnur fólk reipi, teip, dragbönd og fleira.

Bauhaus hefur til dæmis verið vinsæll áfangastaður þeirra sem vilja bæta í safnið. Það er einfaldlega mun ódýrara en að versla í erótískum verslunum. Þú færð oft ódýrari og endingarbetri vöru þar.

Þá segir Magnús að gæludýraverslanir hafi einnig hagnast á auknum áhuga fólks á BDSM en fólk kaupir þar til dæmis hundaólar.

Auglýsing

læk

Instagram