Íslensk fimm barna móðir liggur þungt haldin með nýrnabilun í Búlgaríu: Kemst ekki heim vegna skriffinsku meðan lífið fjarar út

Á St. Marina-sjúkrahúsinu í Varna í Búlgaríu liggur Lára Björk Sigrúnardóttir, einstæð fimm barna íslensk móðir með alvarlega nýrnabilun og kemst ekki heim til Íslands vegna skriffinsku. Þar hefur hún legið í viku en fyrir aðeins nokkrum dögum var henni vart hugað líf. Nýrnabilunin hefur haft gríðarlegt áhrif á útlimi hennar sem nú virðast vera að gefast upp hver af öðrum.

Andlát hennar verður þó ekki skrifað á hana sjálfa eða aðstandendur hennar. Þeir sem bera ábyrgð á því eru í fríi í dag – það er sunnudagur og enginn frá tryggingafélaginu hennar, Borgaraþjónustunni eða SOS virðist geta hjálpað fjölskyldunni.

Lára Björk var í tveggja vikna fríi með vinafólki sínu en berst nú fyrir lífi sínu á illa reknu sjúkrahúsi sem skilar ekki sjúkraskýrslum heim til Íslands. Tryggingafélagið hennar Vörður, Sjúkratryggingar Íslands og SOS hafa neitað henni um aðstoð fyrr en umræddar skýrslur berast. Konan færist nær dauðanum með hverri mínútu sem fer til spillis á meðan börnin hennar horfa agndofa á.

Fá ekki að hitta mömmu sína

„Við fáum ekki að hitta mömmu. Þau segja að það séu reglur á sjúkrahúsinu. Við flugum af stað til Búlgaríu á fimmtudaginn til að reyna að bjarga henni. Við vorum komin hingað út á föstudagsmorgun og höfum í raun enga aðstoð fengið – hvorki frá Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins eða kjörræðismanni Íslands í Búlgaríu. Þá hefur SOS-þjónustunni ekkert gengið að aðstoða okkur og tala um tungumálaerfiðleika,“ segir Nadia Rós, dóttir konunnar í samtali við Nútímann í morgun. Hún stendur fyrir utan þetta ríkisrekna sjúkrahús sem fær tæpar 800 evrur fyrir hvern sólarhring sem það heldur móðurinni á inniliggjandi deild.

„Á meðan er mamma að deyja þarna inni og allt stoppar á einhverjum pappírum“

Nútíminn hefur fengið að sjá öll samskipti sem fjölskyldan hefur haft við hinar ýmsu stofnanir, fyrirtæki og tryggingafélög og allir nota sömu afsökun – það þarf sjúkraskýrslu til þess að hægt sé að flytja þessa einstæðu móður heim undir læknishendur en St. Marina-sjúkrahúsið er ekki í stakk búið til að bjarga lífi hennar.

Sjúkrahúsið vill byrja að fjarlægja tær og putta af Láru Björk – hún vill komast í aðgerðina á Íslandi en fær enga hjálp.

„Við höfum engar upplýsingar fengið frá sjúkrahúsinu annað en stimplað bréf frá skrifstofu St. Marina þar sem stendur að mamma sé í lífshættu. Starfsfólk íslensku ræðismannaskrifstofunar er í raun og veru ekki að gera annað en að hugga okkur og segja að það sem mestu máli skiptir sé að við séum til staðar fyrir hana hérna úti. Við erum ekkert til staðar fyrir hana hérna úti. Við fáum ekki einu sinni að hitta hana,“ segir Nadia Rós sem reyndi í gær að hafa samband við lögregluna í Búlgaríu til þess að fá aðstoð. Þar var enga aðstoð að fá því sjúkrahúsið ber fyrir sig reglum sem þar eiga að gilda jafnt um alla. Það fær enginn að hitta Láru Björk. Á meðan fjarar líf hennar út.

Börnin bíða ráðþrota fyrir utan sjúkrahúsið

„Afhverju fáum við ekki að fljúga með mömmu heim og svo er hægt að þræta um það seinna hver á að borga hvað? Við vitum ekkert hvað við eigum að gera. Það nær enginn í þetta sjúkrahús og ef einhver nær í það af þessum aðilum sem við höfum haft samband við að þá fá þau ekkert að vita því þau eru ekki aðstandendur. Við erum aðstandendur. Ég er dóttir hennar og ég er hérna úti og ég fæ enga aðstoð – engan túlk. Ekkert. Á meðan er mamma að deyja þarna inni og allt stoppar á einhverjum pappírum,“ segir Nadia Rós sem er orðin ráðþrota. Hún fær ekkert að sjá mömmu sína sem liggur nú þungt haldin á sjúkrahúsinu.

Ef ekkert verður að gert er ljóst að konan mun deyja úti í Búlgaríu.

Myndirnar sem Nútíminn birtir voru teknar fyrir nokkrum dögum á sjúkrahúsinu – ástandið í dag hefur versnað til muna og þykir ljóst að einstæða móðirin hefur nú þegar misst einhverja útlimi. Ekki er hægt að skera hana upp á þessum ríkisrekna spítala og því dreifist sýkingin hratt í önnur líffæri. Ef ekkert verður að gert er ljóst að konan mun deyja úti í Búlgaríu.

Lára Björk liggur þungt haldin og enginn á Íslandi virðist geta hjálpað þrátt fyrir að hún sé tryggð upp í rjáfur og tilbaka.

„Þau vilja taka af henni putta og tær en mamma vill að það sé gert á Íslandi. Þetta er bara allt svo ömurlegt – ég get ekkert gert.“

Það er sunnudagur – allir eru í fríi…

Andlát hennar verður þó ekki skrifað á hana sjálfa eða aðstandendur hennar. Þeir sem bera ábyrgð á því eru í fríi í dag – það er sunnudagur og enginn frá tryggingafélaginu hennar, Borgaraþjónustunni eða SOS virðist geta hjálpað fjölskyldunni. Allt þetta þrátt fyrir þá staðreynd að hún sé tryggð upp í rjáfur og tilbaka.

„Við þiggjum alla þá hjálp sem við getum fengið,“ segir dóttir konunnar sem vonar að móðir sín haldi áfram að berjast og nái að komast lifandi til Íslands. Hver mínúta skiptir máli í lífi konunnar – það virðist hins vegar skipta tryggingafélagið Vörð, SOS og Borgaraþjónustuna litlu máli…jú, ef þau fá skýrslurnar svo hægt sé að þræta um það hver borgar. Allir þessir aðilar vita að konan berst nú fyrir lífi sínu en enginn virðist berjast fyrir hana – ekki nema börnin hennar sem fá ekki einu sinni að hitta mömmu sína.

„Ég vill bara fá að sjá mömmu. Ég vill bara fá hana heim,“ segir Nadia Rós.

Auglýsing

læk

Instagram