Játar að hafa slumpað á sólarlagið í Fréttablaðinu: „Veit ekki enn þá hvar ég finn almanak“

Það mætti segja að veröld þeirra sem treystu á upplýsingar um sólarupprás og sólarlag í Fréttablaðinu á árum áður sé að hruni komin eftir óvænta játningu fyrrverandi blaðmanns á Facebook í dag.

Tölvunarfræðingurinn Salvar Þór Sigurðarson starfaði á Fréttablaðinu á árinum 2006 til 2008. Í nokkrar vikur þurfti hann að uppfæra litla dálkinn sem sagði hvenær sólarupprás og sólarlag var þann daginn.

„Minnir að ég hafi verið að leysa Bergstein Sigurðsson af, sem sagði mér að ég gæti fundið þessar upplýsingar í Almanakinu,“ segir Salvar en Bergsteinn þessi er í dag einn af stjórnendum Síðdegisútvarpsins á Rás 2.

Ég vissi ekkert hvað það var en kinkaði bara kolli, og þegar kom að deadline gat ég engan veginn fundið þetta. Þannig að ég slumpaði bara á líklegar tímasetningar. Það tók enginn eftir því.

Nútíminn hafði samband við Salvar, nú þegar hann hefur gert hreint fyrir sínum dyrum, og spurði út í viðbrögð fólks við játningunni.

„Einhverjir draga sennilega heiðarleika minn í efa núna, en fyrst og fremst er þungu fargi af mér létt. Samviskubitið hefur nagað mig að innan síðastliðin … níu ár,“ segir Salvar.

„Nú get ég allavega byrjað með hreint borð, og unnið mér inn traust fólks á ný. Vona samt að enginn biðji mig um að uppfæra sólarlagsdálkinn í Fréttablaðinu aftur, því ég veit ekki enn þá hvar ég finn almanak.“

Auglýsing

læk

Instagram