Justice League til Djúpavíkur á Ströndum, stórmynd tekin upp á Vestfjörðum í október

Ofurhetjumyndin Justice League verður tekin upp að hluta á Djúpavík á Ströndum, samkvæmt heimildum Nútímans. Sömu heimildir herma að tökur hefjist í október.

Tökur á myndinni hófust í apríl. Leikstjóri er Zack Snyder og kunnugir lesa í fréttir af tökum myndarinnar að Ísland verði fyrirferðarmikið en hún verður einnig tekin upp í Englandi og Skotlandi.

Sjá einnig: Dýrasta mynd allra tíma tekin upp á Íslandi, Justice League í tökur hér á landi í október

Nútíminn greindi frá því fyrir helgi að Justice League yrði tekin upp að hluta hér á landi. RÚV staðfesti svo í dag að tökur á stórri bandarískri kvikmynd fari fram á Djúpavík á Ströndum næsta haust. Heimildir Nútímans herma að um sé að ræða stórmyndina Justice League, sem gæti orðið ein af dýrustu myndum allra tíma.

True North kemur að framleiðslu myndarinnar en mikil leynd hvílir yfir verkefninu. Ásbjörn Þorgilsson, eigandi Hótels Djúpavíkur, sagði í viðtali í Bændablaðinu í vikunni að kvikmyndaframleiðandinn væri búinn að leigja hótelið í haust og að von sé á 200 manns í Djúpavík til að vinna að myndinni.

Þá segir hann að von sé á skemmtiferðaskipi sem muni hýsa starfsliðið á meðan tökum standi.

Margir stórleikarar fara með hlutverk í myndinni sem fjallar um ofurhetjur á borð við Batman, Superman, Wonder Woman, Aquaman og Flash. Á meðal leikara eru Ben Affleck, Amber Heard, Amy Adams, Jared Leto, Jesse Eisenberg, J.K. Simmons, Jeremy Irons og Willem Dafoe.

Leikarinn Julian Lewis Jones bættist nýlega í hóp leikara. Hann sagði í viðtali við Wales Online að myndin verði að öllum líkindum sú dýrasta sem gerð hefur verið.

Vefurinn Uproxx greinir frá því að tökurnar á Íslandi muni að öllum líkindum sýna fjarlæga plánetu og við veltum nú fyrir okkur hvort og þá hver af þessum stjörnum er á leiðinni til landsins í október.

Auglýsing

læk

Instagram