Kári Stefáns gagnrýnir Líf fyrir að leggjast gegn bólusetningartillögu: „Þetta ruglar mig í ríminu“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýnir Líf Magneudóttur í grein í Fréttablaðinu í dag fyrir að leggjast gegn tillögu um að gera bólusetningar skilyrði fyrir leikskólavist í Reykjavík.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillögu í borgarstjórn í síðustu viku um að almennar bólusetningar verði skilyrði fyrir inntöku barna í leikskóla borgarinnar. Líf Magneudóttir mótmælti tillögunni og sagði í umfjöllun í Fréttablaðinu að bólusetningar vera best leyst á vettvangi heilbrigðiskerfisins.

„Það er ekki sveitarfélaga að taka fram fyrir hendurnar á Embætti landlæknis og stjórnmálamenn verða að vera yfirvegaðir og upplýstir þegar þeir leggja fram tillögur sem mæla með heftandi inngripum í líf fólks og í þessu tilfelli ungra barna og fjölskyldna þeirra,“ sagði hún.

Kári segir í grein sinni eina leiðin til þess að stemma stigu við mislingum sé að brýna foreldra til bólusetningar barna sinna. „Þetta er aðferð sem ég þekki frá tuttugu ára dvöl minni í Bandaríkjunum þar sem við urðum að framvísa bólusetningavottorði á hverju hausti þegar börnin byrjuðu í skóla,“ segir Kári áður en hann ávarpar Líf persónulega.

„En þú, Líf Magneudóttir, sósíalistinn sjálfur gast ekki tekið undir tillöguna, fannst hún harkaleg og vega að rétti foreldra til þess ákvarða um örlög barna sinna. Þessi réttur foreldra til þess að láta ekki bólusetja börn sín fyrir mislingum er í raun rétturinn til þess að meiða börn annarra ef svo óheppilega vill til að sjúkdómurinn blossi upp en ef ekki þá rétturinn til þess að setja börn annarra í hættu,“ segir hann.

Sjá einnig: Sjö ástæður fyrir því að Kári Stefánsson er harðasti maður landsins

Kári segir alla sammála um að verja þurfi börn gegn mislingum með bólusetningum. „En það er ekki ljóst hversu stóran hundraðshluta þarf að bólusetja til þess að halda sjúkdómnum niðri. Í því samhengi er rétturinn til þess að láta ekki bólusetja barnið þitt fyrir mislingum rétturinn til þess að krefjast þess að önnur börn en þín sjái um að verja hópinn og þar með þín börn gegn sjúkdómnum,“ segir hann.

„Einn af sérfæðingum mínum í blessun sósíalismans benti mér á að þótt foreldrar sem vilja ekki láta bólusetja börn sín séu að taka rangar ákvarðanir megi ekki láta það bitna á börnum þeirra. Mitt svar við því er að það er enn verra að láta það bitna á börnum annarra.“

Kári segir að það sé í ósamræmi við grundvallarprinsip sósíalismans að leggjast gegn tillögu Hildar og segir hana miðast við að einstaklingarnir færi lágmarksfórn til þess að hlúa að hagsmunum samfélagsins.

„Hvernig stendur á því að þú lagðir ekki sjálf fram þessa tillögu heldur kona úr röðum íhaldsins svarta? Þetta ruglar mig í ríminu og veldur mér áhyggjum og mér er ekki ljóst hvort ég ætti að taka bílveikitöflu eða það ætti að senda þig upp í sveit til endurmenntunar í stíl Maós. En hitt veit ég fyrir víst að ég held áfram að hrífast af því hvernig Hildur reynir að hlúa fallega að þeim minnstu í því samfélagi sem hún býr í.“

Auglýsing

læk

Instagram