Margrét Maack kenndi þýskum landsliðsmönnum að dansa eins og Beyoncé

Þýska karlalandsliðið í handbolta sigraði það íslenska í gær í æfingarleik fyrir heimsmeistaramótið í Katar, sem fer fram síðar í mánuðinum. Dagur Sigurðsson, þjálfari liðsins, sendi leikmennina í hópefli um helgina og hluti liðsins lærði að dansa við lag Beyoncé: Single Ladies.

Margrét Erla Maack sá um að kenna þeim Silvio Heinevetter, Simon Ernst, Johannes Sellin og Steffen Weinhold dansinn við lagið Single Ladies sem Beyoncé gerði ódauðlegan í myndbandi árið 2009. Margrét segir hópinn hafa staðið sig mjög vel:

Þetta var ótrúlega skemmtilegt og minn hópur stóð sig mjög vel. Það er eitthvað sérlega gaman við að sjá handboltakempur vera að segja hvor öðrum til: „Nei, þú byrjar með hægri, og þú átt að skvetta rassinum upp, ekki til hliðar!“

Aðrir leikmenn liðsins fengu einnig verkefni. Hilmar Guðjónsson leikstýrði hluta hópsins í Rómeó og Júlíu, Lalli töframaður setti upp töfrasýningu við lagið Final Countdown með öðrum og Börkur Hrafn Birgisson samdi lag með leikmannahópnum sínum.

„Dagur Sig hafði samband við okkur til að vera með smá hópefli laugardaginn fyrir leikina,“ útskýrir Margrét. „Hópnum var skipt í fernt. Þeir voru allir mjög til í þetta og fannst rosalega gaman, þeir kepptu um kvöldið um besta atriðið og þetta eru auðvitað menn með mikið keppnisskap.“

Og hver vann?

„Leiklistarhópurinn. Þeir voru líka alveg frábærir. Dómarar voru svo læknir liðsins og sjúkraþjálfarar og tvær stúlkur sem vinna á barnum á Kex.“

Seinni æfingarleikur Íslands og Þýskalands fer fram í kvöld. Útsending hefst á RÚV klukkan 19.20.

En hvort þýsku landsliðsmennirnir voru svona fimir munum við aldrei komast að.

Auglýsing

læk

Instagram