Kindin Dolly innblástur Sálarslagarans Orginal

Slagarinn Orginal er á meðal vinsælustu laga Sálarinnar. Nú hefur Stefán Hilmarsson uppljóstrað lagið fjallar um frægustu kind allra tíma, hana Dollý. Þetta kemur fram í Stúdentablaðinu.

„Líklega veld ég ykkur vonbrigðum með því að upplýsa að sá texti, sem reyndar er eftir Friðrik vin minn Sturluson, er innblásinn af því merka afreki að mönnum tókst að klóna kind laust fyrir síðustu aldamót,“ segir Stefán.

„Mig minnir að kindin hafi hlotið nafnið Dollý. Textinn er því mun frekar líffræðilegur, en félagsfræðilegur, þótt heimfæra megi hann á báða vegu.“

Dollý var sauðkind og fyrsta klónaða spendýrið. Dollý var klónuð í Roslin-stofnuninni í Edinborg, Skotlandi og ól þar sína ævi. Hún kom í heiminn 5. júlí árið 1996 og drapst 14. febrúar 2003.

Lesendur geta rýnt í textann við Orginal hér:

Það er ekki nóg að hafa sannanir, staðreyndir
þó þú þykist vita um hvað málið snýst, fyrir víst.
Það er allt á huldu hér og í raun og veru er
ekkert svar að fá nema þetta hér:

Ég er bara ég
þú ert bara þú
ég er bara mynd.

Ég er spegilmynd af þér
ég veit ekki hver ég er
hver er orginal?
Ég er spegilmynd af þér
ég veit ekki hver ég er
hver er orginal?

Ég get ekki fundið neina ástæðu, útskýringu.
Kannski eru þetta bara ofsjónir, vísindi.
Þú skalt ekki trúa mér, það má rækta hvað sem er
nýjan líkama, þúsund manna her.

Ég er bara ég,
þú ert bara þú,
ég er bara mynd.

Ég er spegilmynd af þér
ég veit ekki hver ég er
hver er orginal?
Ég er spegilmynd af þér
ég veit ekki hver ég er
hver er orginal?

Mynd af þér -ég er
alveg orginal.

Ég er spegilmynd af þér
ég veit ekki hver ég er
hver er orginal?
Ég er spegilmynd af þér
ég veit ekki hver ég er
hver er orginal?

Ég veit ekki hver ég er
ég er spegilmynd af þér
alveg orginal
alveg orginal
alveg orginal
ég veit ekki hver ég er
er ég orginal?

Í viðtalinu ræðir Stefán einnig um goðsagnakenndar glósur sem hann skrifaði í félagsfræðiáfanganum FÉL102G. Stebbaglósurnar svokölluðu, skrifaði hann árið 2002 og hafa þær notið mikilla vinsælda hjá félagsfræðinemum síðan og er Stefán Hilmarsson glósuhetja samkvæmt Stúdentablaðinu:

Það var síður en svo planið. Ég hef hins vegar haft af því veður að glósurnar hafi gengið manna í millum árum saman. Á sínum tíma lagði ég mikið uppúr því að mæta á fyrirlestra og glósa vel í þeim fögum sem eru glósuhæf, en almenna félagsfræðin var eitt þeirra faga, enda mikið til sagnfræði.

Stefán hafði á þessum tíma frekar lítinn tíma til að liggja yfir bókunum.

„Minnisstætt er til dæmis þegar Sálin lék nokkra tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni er ég var í náminu. Þá sat ég aðferðarfræðifyrirlestra í Háskólabíó fyrir hádegi og æfði með Sinfó í sama sal eftir hádegi,“ segir hann í samtali við Stúdentablaðið.

„Um sama leyti var yngri sonurinn hvítvoðungur, þannig að námstíminn var helst til knappur. Af þessum sökum vann ég glósuvinnuna býsna vel, enda vissi ég að ég þyrfti að byggja mikið á þeim. Ég deildi síðan glósunum með völdum samnemendum og svo fóru þær á flakk, eins og gengur. Ekki átti ég von á því að þetta gengi síðan ár eftir ár.

Smelltu hér til að lesa viðtalið við Stefán.

Auglýsing

læk

Instagram