Beðin um að kreista brjóstið á flugvelli og láta mjólk leka úr því, brjóstapumpan þótti grunsamleg

Tveggja barna móðir hefur lagt fram kvörtun hjá lögreglu í Þýskalandi eftir að hún var beðin um að kreista brjóst sitt til að sýna fram á að hún væri mjólkandi, eða með barn á brjósti.

Gayathiri Bose var á leið til Parísar frá Frankfurt í Þýskalandi á fimmtudaginn í síðustu viku. Hún var með brjóstapumpu í handfarangri sínum og gerðu tollverðir athugasemdir við það.

Þeim fannst grunsamlegt að hún væri með tækið meðferðis en ekkert barn. Sjö mánaða gamalt barn hennar, sem nærist á brjóstamjólk, varð eftir í Frankfurt.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC. 

Bose var beðin um að koma afsíðis þar sem hún var spurð um málið. Var hún meðal annars spurð hvort hún væri með barn á brjósti. Þá vildu tollverðirnir einnig vita hvar barnið hennar væri og hvort það væri í Singapúr, heimalandi hennar.

Bose segir að tollverðirnir hafi ekki trúað henni þegar hún sagði að tækið væri brjóstapumpa, tæki sem hún notaði til að losa mjólkina úr brjóstunum.

Því næst var hún færð inn í herbergi þar sem kvenkyns tollvörður spurði hana enn fleiri spurninga. Tollvörðurinn bað hana meðal annars um að sanna að hún væri mjólkandi.

„Hún bað mig um að hneppa frá blússunni og sýna henni brjóstið,“ segir Bose í samtali við BBC. Því næst átti hún að kreista brjóstið og láta mjólkina leka út úr því. Bose lét undan og gerði eins og tollvörðurinn sagði henni að gera.

„Það var ekki fyrr en ég komst loksins út úr herberginu að ég fór hægt og rólega að skilja hvað hafði gerst. Ég byrjaði bara að gráta, ég var í miklu uppnámi,“ segir Bose. Hún fékk að lokum að fara um borð í vélina og taka brjóstapumpuna með.

Bose segir að atvikið hafi verið mjög niðurlægjandi og hefur hún lagt fram kvörtun.

Auglýsing

læk

Instagram