Konan sem fannst við Mýrdalsjökul sýndi hvernig á að fara að þessu

Konan sem leitað hafði verið að norðan Mýrdalsjökuls fannst rétt fyrir klukkan sex í morgun heil á húfi. Þetta kemur fram á Vísi.

Björgunarsveitarmenn á snjóbílum fundu konuna og Sveinn Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir í viðtali á Vísi að það hafi farið vel um hana:

Hún leitaði sér skjóls þegar veðrið skall á og kom sér þarna fyrir. Það amaði svo sem ekkert að henni og hún þekkir vel til þarna á svæðinu og var vel búin til vetraferða. Hún er enginn nýgræðingur.

Konan var með búnað sem kallast Spot og sendir frá sér merki reglulega. Merkin höfðu borist reglulega þar til á föstudag. Sveinn segir að hún hafi talið að búnaðurinn væri ennþá að senda frá sér merki.

„Hún varð ekki vör við að merkið væri ekki að skila sér. Hún var með gsm síma líka en áttaði sig ekki á því að tækið væri ekki að senda frá sér,“ segir hann.

Aftakaveður var á svæðinu í gær og urðu björgunarsveitarmenn frá að hverfa á tímabili.

Þessi mynd frá flugbjörgunarsveitinni á Hellu sýnir ágætlega aðstæðurnar við leitina í gær:

En konan var öllu vön og augljóslega pollróleg yfir þessu. Samkvæmt frétt Vísis fer hún nú til byggða.

Hún hélt af stað frá Skaftártungu á gönguskíðum á þriðjudaginn og hugðist koma aftur í þarnæstu viku í fljótshlíð. Þessi mynd er úr fréttum Stöðvar 2 í gær. Rauði punkturinn sýnir sirka hvar hún fannst:

gonguskidi

Auglýsing

læk

Instagram