Konur eiga að sækjast eftir sömu tækifærum

„Því miður er þörf á þessum félagsskap þó að það sé árið 2014. Mér finnst fáar konur í stjórnunastöðum endurspegla þessa þörf en einnig eiga konur það til að halda aftur að sér,“ segir Lilja Gylfadóttir, viðskiptafræðinemi og formaður Ungra athafnakvenna.

Samkvæmt úttekt Kjarnans í febrúar voru aðeins sex konur í hópi æðstu stjórenda í fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestingaröflum á Íslandi.

Ungar athafnakonur er nefnd sem hóf störf í haust og starfar undir Félagi kvenna í atvinnulífinu. Áhersla nefndarinnar er á að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Formlegur stofnfundur Ungra athafnakvenna verður haldinn 30. september klukkan 20 í höfuðstöðvum KPMG Borgartúni.

Spurð út í þörfina fyrir slíkum félagsskap segir Lilja að fjöldi rannsókna sýni að konur sækist minna eftir tækifærum sem bjóðast. „Konur eiga það til að þurfa þetta extra push og við trúum að við séum að veita þessa auknu hvatningu sem til þarf með tilkomu Ungra athafnakvenna,“ segir hún. „Mín skoðun er sú að með því að hvetja og móta konur þegar þær eru í námi eða nýlega komnar út á vinnumarkaðinn þá sækjast þær frekar eftir þeim tækifærum sem bjóðast. Það getur verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.“

Með þessu vill félagsskapurinn tækla vandamálið áður en það verður til, að sögn Lilju:

Konur verða að átta sig á því að þær eiga að sækjast eftir sömu tækifærum og karlmaðurinn sem vinnur með þeim eða situr við hliðina á þeim í skólanum. Ef við förum með það hugarfar inn á vinnumarkaðinn er ég viss um að við sjáum mikla fjölgun á konum á öllum sviðum í atvinnulífinu, í stjórnunarstöðum og fjölmiðlum, sem er auðvitað best fyrir samfélagið í heild.

Lilju fannst þurfa að bæta aðgengi ungra kvenna að Félagi kvenna í atvinnulífinu en inngönguskilyrðin í félagið eru að vera atvinnurekandi eða stjórnandi. „Að sama skapi fannst mér vanta vettvang fyrir ungar og metnaðarfullar konur til að koma saman, hlusta á áhugaverða fyrirlestra eða fræðslu og í leiðinni stækka tengslanetið sitt,“ segir hún. „Einnig hefur jafnrétti kynjanna alltaf verið mér mjög hugleikið og ég ákvað á þessum tímapunkti að verða hluti af breytingunni — og vonandi láta hana gerast hraðar í stað þess að sitja bara uppi í sófa og kvarta.“

Markmið nefndarinnar er að hvetja ungar konur til þess að stíga fram, skapa vettvang þar sem þær fá tækifæri til að læra hver af annarri, mynda tengslanet og skiptast á hugmyndum og þar með auka þáttöku þeirra í atvinnulífinu. Stefnan er að auka vitund um jafnt hlutverk kvenna og karla í atvinnulífinu, stuðla að bættu samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðist sömu tækifæri.

Erum við langt frá jafnrétti í atvinnulífinu?

„Að mínu mati já,“ segir Lilja. „Þó við séum framarlega í samanburði önnur lönd þá var kynbundinn launamunur til dæmis 19,9% samkvæmt tölum hagstofunnar árið 2013. Árið 2012 var kynbundinn launamunur 18,1% þannig óleiðréttur launamunur kynjanna hækkaði um 1,8% milli ára. Þetta þykir mér einstaklega sorglegt og því er auðvelt fyrir mig að svara þessari spurningu, þessar tölur segja allt sem þarf.“

Auglýsing

læk

Instagram