Logi Bergmann svarar virkum í athugasemdum: „Venjulegt fólk missir tökin á sjálfu sér“

Sjónvarpsmaðurinn Logi Bergmann fékk að kenna á reiði virkra í athugasemdum eftir ummæli sem hann lét falla í Bítinu á Bylgjunni í síðustu viku. Þar sagðist hann engan veginn ná þeim sem vilja enga flóttamenn til landsins. „Það er í mínum huga bara vont fólk.“

Eyjan tók fréttina upp og í athugasemdakerfinu undir fréttinni er Logi meðal annars kallaður fáviti. Annar leggur til að hann taki höfuðið út úr rassgatinu á sér.

Logi ræddi um þessi viðbrögð í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann sagðist almennt ekki lesa það sem fer fram í ummælakerfunum. „Þau bæta engu við umræðuna og eru í rauninni mjög kjánaleg,“ sagði hann.

Það sem mér finnst merkilegast við þau, og eiginlega alveg ótrúlegt, er að þarna kemur ósköp venjulegt rólegheitafólk sem bara missir algjörlega tökin á sjálfu sér. Það öskrar og fer í hástafi og sakar aðra í umræðunni um að vera brenglað.

Hann tók sem dæmi umræðuna sem hófst á Eyjunni.

„Þá byrjar fólk að svara mér og það svarar mér allt með því að ég sé fáviti, eða í það minnsta nokkrir, aðrir svara málefnalega,“ sagði hann í Morgunútvarpinu.

„En það verður aldrei nein umræða úr þessu, þeir misskilja mig, rangtúlka það sem ég segi og svara mér þannig, sem mér finnst vera svolítið merkilegt.“

Sjá einnig: Sjö hrikalegustu ummælin frá hlustendum Útvarps Sögu um hinseginfræðslu

Hann sagðist kunna að meta skoðanaskipti á Facebook og Twitter. Ummælakerfin á fréttasíðunum væru hins vegar allt annað mál.

„Þegar fjölmiðlar bjóða upp á hægt sé að kommenta á fréttir eru allt í einu eitthvað fólk mætt í partý til þín sem þú ætlaðir ekkert að vera með. Það blandar sér í umræðu sem þú ætlaðir ekkert að hefja.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sé alinn upp á þann hátt að honum finnist eðlilegt að segja sumt af því sem fólk segir í kommentakerfum. Ég get ekki ímyndað mér að þetta fólk fari í veislu og segi við fermingarbarnið: Þú ert nú meiri djöfulsins auminginn, og foreldrar þínir – það er nú meira draslið. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður hagi sér svona.“

Og hann ætlar ekki að draga upprunaleg ummæli sín til baka.

„Ég stend við það að mér finnst eitthvað að fólki sem vill ekki bjarga fólki úr neyð, alveg sama hver staðan er,“ sagði hann í Morgunútvarpinu.

Auglýsing

læk

Instagram