Magnús Magnus Magnússon opnar sig um skaupið: „Heiður þrátt fyrir að vera túlkaður sem þjóðarskömm“

Auglýsing

Eitt eftirminnilegasta atriðið í áramótaskaupinu á gamlárskvöld fjallaði um Magnús Magnus Magnússon sem gat ekki víkingaklappað í takt við þjóðina. Magnús Magnus lýsti á dramatískan hátt hvernig var að vera útundan á meðan öll þjóðin klappaði í takt. Horfðu á atriðið hér fyrir neðan.

Fáir vita hins vegar að maður að nafni Magnús Magnus Magnússon er til í alvöru og Nútíminn er búinn að hafa uppi honum. Magnús Magnus ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, stundaði nám í Kaliforníu og starfar nú í skemmtanabransanum í Hollywood.

Hann sá ekki skaupið þegar það var á dagskrá enda staddur í Kaliforníu. „Ég lá reyndar á uppblásnum höfrungi í sundlaug þegar vinir mínir heima fóru að senda mér skjáskot af nafninu mínu sem birtist í skaupinu,“ segir Magnús Magnus í samtali við Nútímann.

Ég fríkaði út en enginn í kringum mig skildi hvers vegna mér fannst þetta vera big deal. Þetta er mikill heiður þrátt fyrir að vera túlkaður sem þjóðarskömm Íslands.

Auglýsing

Magnús Magnus hefur unnið til Emmy-verðlauna fyrir störf sín í spjallþætti Ellenar Degeneres, hefur ferðast til 65 landa og sneri nýlega heim frá Úganda þar sem hann lék stríðshetju í kvikmynd þar í landi. Hann segist ávallt vera duglegur að dásama Ísland við verðandi ferðamenn. „Með áherslu á að túristar verði að prufa að surfa í Reynisfjöru og alls ekki drekka íslenska kranavatnið. You’re welcome!“ segir hann laufléttur.

Magnús Magnus segist hafa verið sakaður um vera lélegur í ýmsu, til dæmis fótbolta og að halda vinnu. Hann hefur hins vegar aldrei verið sakaður um að vera lélegur í að klappa.

„Ég taldi mig vera myndarlegan mann þangað til ég sá manninn sem lék mig. No offense. Gátu þau ekki að minnsta kosti fengið Steindann okkar? Hann hlýtur að hafa fengið bréfin mín,“ segir Magnús Magnus.

Magnús Magnus segist vera mikill stuðningsmaður Íslands í fótbolta og var staddur á Arnarhóli í sumar þegar leikur Íslands og Frakklands á EM fór fram.

„Ég hef aldrei verið jafn stoltur af þjóðinni minni og þá … þangað til þeir töpuðu. Allavega — ég er mikill stuðningsmaður íslenska landsliðsins, sérstaklega vegna þessa að ég á sérhannaða landsliðstreyju með nafninu mínu á og ég get því miður ekki skilað henni,“ segir Magnús Magnus.

En hvaðan kemur nafnið þitt?

„Ég heiti Magnús Magnus Magnússon. Pabbi hét Magnús og ég heiti Magnús sem gerir mig þar af leiðandi að Magnúsi Magnússyni. Ég var orðinn svo þreyttur á að vera ruglað saman við Magnús [Ver] Magnússon, sterkasta mann heims, já það gerist!, svo ég tók upp millinafnið Magnus. Það batt enda á þennan misskilning,“ útskýrir Magnús Magnus.

Umrætt atriði sem hefst á 20. mínútu má sjá hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram