Ætlar nýkjörinn forseti að vera með Facebook-síðu? Kannski, kannski ekki

Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti Íslands, hefur ekki ákveðið hvort hann ætli að halda úti Facebook-síðu á embættistímanum.

Margir þjóðhöfðingjar halda úti Facebook-síðu til að gefa fólki innsýn í störf sín. Barack Obama Bandaríkjaforseti er til að mynda með tæplega 50 milljónir fylgjenda á Facebook-síðu sinni sem er uppfærð mjög reglulega.

Eins og dagskrá forseta sýnir er starfið annasamt og það væri afar fróðlegt að fá að fylgjast betur með. Guðni hélt úti öflugri Facebook-síðu í kosningabaráttunni sem rúmlega 21 þúsund manns hafa lækað.

Guðni segir í samtali við Nútímann að hann geti ekki lofað neinu en verið sé að skoða öll mál í sambandi við samfélagsmiðla. Gaman væri að hans sögn að halda uppi Facebook-síðu forseta þar sem forsetinn sjálfur myndi halda úti reglulegum færslum en hann verði að passa sig á því að sinna einnig öðrum skyldum.

Ég hef ekki íhugað svo langt en það væri gaman, við tökum bara eitt skref í einu.

Hann segir að þetta sé ekki það fyrsta sem nýkjörinn forseti hugsi um þegar tekið er við embætti. Það er margt annað sem vert er að huga að en auðvitað er þessi stóra ákvörðun hluti af embættinu.

Aðspurður svarar Guðni því að hann hafi ekki leitt hugan að því hverju hann myndi vilja koma á framfæri skyldi hann opna facebook aðgang forseta.

„Ég hef fylgst með facebook-síðu Baracks Obama og hans síða væri ágætis fyrirmynd en hafa þarf í huga að þar á bakvið er mikið fjölmennara starfslið og allt annað umhverfi. Við sjáum til, ég lofa engu,“ segir Guðni.

Auglýsing

læk

Instagram