Rætt um sjálfsmynd, sjálfsást og samfélagsmiðla í nýju tímariti grunnskólanemenda

Félagsmiðstöðin Frosti í Hagaskóla gaf á dögunum út tímaritið Gáran. Í tímaritinu er fjallað um málefni á borð við sjálfs- og líkamsvirðingu, sjálfsást, samfélagsmiðla, staðalímyndir, átröskun og annað í samfélaginu sem hefur áhrif á sjálfsmynd unglinga.

Dýrleif Sjöfn Andradóttir ritstýrði en Kristín Björk Smáradóttir, starfsmaður hjá félagsmiðstöðinni, hafði umsjón með útgáfunni. Alls komu tólf aðrir nemendur skólans að tímaritinu með sínum framlögum.

„Markmið okkar frá upphafi var að skapa auknar umræður hjá ungmennum, sem og öðrum, um sjálfsmynd, sjálfsást og samfélagsmiðla. Þessi málefni ná nefnilega til svo ótrúlega margra, jafnt ungra sem aldraðra, enda höfum við flest upplifað það að vera óörugg eða finnast sjálfsmynd okkar brotin á ákveðnum tímapunkti í lífi okkar,” segir Dýrleif í ávarpi sínu í upphafi tímaritsins.

Hugmyndin að tímaritinu kviknaði út frá umræðum í Félagsmiðstöðinni um líkamsvirðingu og áhrif samfélagsmiðla. Félagsmiðstöðin fékk í kjölfarið þróunarstyrk frá Reykjavíkurborg til þess að fjármagna útgáfuna.

Tímaritið er stútfullt af flottum greinum þar sem nemendur segja sögu sína og fjalla um mikilvæg málefni. Þar eru meðal annars greinar um Druslugönguna, samfélagsmiðla, berbrjósta sundferðir og auglýsingar.

Lestu Gáruna með því að smella hér.

Auglýsing

læk

Instagram