Reykjavík fullbókuð: Erfitt að koma fólki á vegum Sónar fyrir

Á árum áður var febrúar ekki annasamur ferðamannatími á Íslandi en það hefur heldur betur breyst. Nánast öll hótel í borginni eru uppbókuð og blaðamenn sem ætluðu að koma á Sónar-hátíðina í næstu viku hafa hætt við vegna þess að þeir fá ekki gistingu.

Sjá einnig: Súrefni snýr aftur og spilar á Sónar

Björn Steinbekk, framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Sónar Reykjavík, hefur lent í vandræðum með að fá gistingu undir fólk sem kemur til landsins á vegum Sónar, þrátt fyrir að hafa bókað gistingu fyrir löngu. Hótel eru yfirbókuð og blaðamenn sem bókuðu ekki gistingu nógu tímalega hafa þurft að hætta við komu sína.

Það er fullt af blaðamönnum sem við hefðum viljað fá en komust ekki að. Það er ekki við neinn að sakast. Þeir hefðu átt að gera ráðstafanir.

Um 1.700 manns koma til landsins á vegum Sónar en borgin er full af ferðamönnum, sem hefur ekki alltaf verið raunin á þessum tíma árs.

„Þetta er svo undarlegt. Við byrjuðum með Sónar á þessum tíma því þetta var daufasti tími ársins í ferðamennsku en nú eru öll hótelin full. En þetta eru auðvitað frábærar fréttir,“ segir Björn.

Sónar Reykjavík fer fram í Hörpu og hefst 12. febrúar. Miðasala fer fram á Miði.is.

Auglýsing

læk

Instagram