Segir borgarfulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur verða sér hvað eftir annað til háborinnar skammar: „Ráða engan veginn við þetta sjálfsagða verkefni”

Kolbrún Bergþórsdóttir vandar borgarfulltrúum Reykjavíkurborgar ekki kveðjurnar í pistli sínum í Fréttablaðinu í dag. Kolbrún segir að borgarfulltrúar, bæði í meirihluta og minnihluta ráði engan veginn við það verkefni sem þau voru kosin til að sinna.

Hún segir að vitleysisgangurinn hafi náð hámarki í síðustu viku þegar umræðan fór út í það hvort ákveðinn borgarfulltrúi hafi ullað á borgarfulltrúa minnihlutans en í síðustu viku ullaði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna á Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í síðustu viku voru gerðar alvarlegar athugasemdir við framkomu Lífar. Líf segist hafa beðið Mörtu afsökunar á ullinu en Marta sagði í samtali við Stundina að afsökunarbeiðnin hafi aðeins borist vegna þess að Líf hafi orðið þess áskynja að Marta hygðist bóka um hegðun hennar. Hún krafðist afsökunarbeiðni á opinberum vettvangi en Líf sagði í Facebook færslu að hún liti svo á að málinu væri lokið.

„Nú er ljóst að borgarfulltrúar, bæði í meirihluta og minnihluta, ráða engan veginn við þetta sjálfsagða verkefni. Þeir eyða ómældum tíma í að bera hver annan alls kyns sökum og orð eins og „einelti“, „leki“ og „trúnaðarbrestur“ koma þar mjög við sögu. Hvert tilfinningalegt upphlaupið rekur annað hjá borgarfulltrúum sem virðast ófærir um að sýna sjálfstjórn,” skrifar Kolbrún.

Sjá einnig: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gengu út af fundi skipulagsráðs: „Þau mæta með ljósmyndarann sjálf”

Kolbrún segir að borgarfulltrúarnir virðist vera í krónísku tilfinningauppnámi vegna þess að þeim sé gert að sitja saman á fundum. Ástæða sé til að efast um að þetta fólk eigi yfir höfuð erindi í stjórnmál og hvort það sé fært um að taka yfirvegaðar ákvarðanir með sem varða hag borgarbúa.

„Ekki virðist hvarfla að þeim að það sé valkostur í stöðunni að bíta á jaxlinn frekar en að góla um fólsku pólitískra andstæðinga. Þessi ítrekuðu neyðarköll rata vitanlega í fjölmiðla sem gera þeim góð skil og „fórnarlömbin“ eru æði dugleg að mæta í viðtöl og tíunda raunir sínar,” skrifar hún.

Borgarfulltrúarnir eru orðnir að athlægi og hafðir að háði og spotti, ekki bara um allan bæ heldur allt land. Með afar heimskulegri framkomu hafa þeir gjaldfellt sig á skömmum tíma.

Hún segir að málið sé ekki verulega flókið. Það snúist einfaldlega um að hegða sér sómasamlega á vinnustað, honum venjulega borgara takist það yfirleitt ágætlega. Borgarfulltrúar ættu að taka sér vinnandi fólk til fyrirmyndar og reyna að haga sér skikkanlega. „Þeir voru kosnir til þess en ekki til að verða sér hvað eftir annað til háborinnar skammar.”

Auglýsing

læk

Instagram