Segir búrkubannið vera mannréttindabrot og ætlar sér að borga allar sektir

Auglýsing

Fransk-alsírski auðjöfurinn Rachid Nekkaz ætlar sér að greiða allar þær sektir sem konur fá vegna búrkubannsins í Danmörku.

Þessi umdeildu lög tóku gildi í Danmörku um síðustu mánaðamót og nú er fólki óheimilt að hylja andlit sitt á almannafæri. Fyrstu sektina vegna bannsins fékk 29 ára gömul kona þann þriðja ágúst síðastliðinn en þá klæddist hún niqab á almannafæri.

Skiptar skoðanir eru á lögunum en margir telja að í þeim felist fordómar gagnvart múslimum og að bannið bitni aðallega á konum sem ganga um í búrku eða með niqab. Séu lögin brotin má fólk búast við sekt upp á 16.500 íslenskar krónur en sú upphæð fer hækkandi með hverju broti einstaklings.

Auðkýfingurinn Rachid Nekkaz sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að koma til Kaupmannahafnar mánaðarlega til að greiða sektir við brotum á búrkubanninu. Í viðtali við danska blaðið Berlingske Tidene segist hann sjálfur vera á móti niqab og búrkum en að hann muni alltaf velja mannréttindi alls staðar í heiminum.

Auglýsing

Hann segir að það sé mannréttindabrot að banna konum að klæðast niqab og búrkum rétt eins og að það sé mannréttindabrot að neyða þær til þess að klæðast einhverju. Hann hefur í gegnum tíðina borgað svipaðar sektir sem konur hafa fengið í Frakklandi og Belgíu.

Múslímsk kona að nafni Laila Belhaj hyggst hjálpa konum að nýta tilboð Nekkaz og hún hefur gefið það út að hún geti komið sektarmiðum þeirra til hans þegar hann heimsækir Kaupmannahöfn í næsta mánuði.

„Þessar konur búa nú við einangrun. Það var ekki svo áður. Stjórnmálamennirnir halda, að þeir hafi frelsað þær og gert þeim greiða, en það er ekki svo,“ sagði Belhaj í samtali við danska ríkisútvarpið.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram