Siggi fer yfir ótrúlega sögu Siggi’s Skyr: „Þú þarft að vera algjörlega sannfærður um að hlutirnir geti gengið upp“

Ótrúleg saga Sigurðar Kjartans Hilmarssonar, sem byrjaði að gera skyr í eldhúsinu heima hjá sér fyrir rúmum áratug og seldi fyrirtækið á dögunum fyrir milljarða, hefur vakið mikla athygli. Sigurður fór stuttlega yfir feril sinn í nýju myndbandi á YouTube-síðu CNBC Make It. Sjáðu myndbandið hér að neðan.

Franski mjólkurrisinn Lactalis keypti í byrjun árs The Icelandic Milk and Skyr Corporation, fyrirtækið sem framleiðir Siggi’s Skyr. Samkvæmt Fréttablaðinu var söluverðið í kringum 300 milljónir dala.

Sjá einnig:Þegar Mjólkursamsalan ætlaði að kæra Siggi’s Skyr fyrir að kalla skyrið sitt skyr

Í myndbandinu fer Siggi yfir það hvernig fyrirtækið fór af stað. Hann var í vinnu sem ráðgjafi í New York sem honum líkaði ekki vel. Meðfram vinnunni fór hann að gera tilraunir við að búa til jógúrt.

Siggi er ekki mjólkurfræðingur heldur hagfræðingur og vann við stjórnendaráðgjöf hjá Deloitte í Wall Street — eitthvað sem hann fann sig ekki í.

Sjá einnig: Jon Hamm hámar í sig Siggi’s Skyr í morgunmat: „Ég reyni að borða ekki rusl, skilurðu“

Honum fannst bandaríska jógúrtið of sætt og ákvað því að prófa að búa til skyr. „Ég sór að gera jógúrtina mína með litlum sykri og við ákváðum að gera það að okkar aðalsmerki. Ég saknaði skyrsins, sem er jógúrtin sem ég ólst upp við að borða,“ segir hann.

Í dag er Siggi’s Skyr mest selda jógúrtið í verslunum Whole Foods. Áður en skyrið fór í sölu þar hafi það verið til sölu í tíu til fimmtán verslunum á Manhattan og í Brooklyn. Stóra tækifærið hafi verið þegar Whole Foods hóf að selja skyrið árið 2008, þó svo að hann hafi ekki áttað sig á því á sínum tíma.

Horfðu á myndbandið

Auglýsing

læk

Instagram