Sjö bjórar úr nýju bjórbjókinni vegna þess að það er föstudagur

Bókin Bjór – umhverfis jörðina á 120 tegundum kom nýlega út.

Stefán Pálsson og Höskuldur Sæmundsson miðla af þekkingu sinni í þessari fyrstu bjórbók sem kemur út á íslensku í áraraðir. Rán Flygenring myndskreytir bókina en í henni eru 120 bjórtegundir sem allar eiga það skilið að menn dreypi á þeim einhvern tíma á lífsleiðinni.

Nútíminn fékk að birta sjö myndir og texta með. Af hverju? Vegna þess að það er föstudagur.

 

1. Carlsberg Pilsner

Carlsberg var í upphafi ósköp venjulegt bruggfyrirtæki en þegar J.C. Jacobsen, sonur stofnandans, komst til vits og ára vildi hann ekki brugga bjór sem sama sleifarlaginu og tíðkast hafði um aldir þegar gerlar voru óþekktar verur. Hann var vísindalega sinnaður og lét reisa nýtískulegt brugghús til að framleiða nýjasta tískudrykkinn, hinn ljósa, létta og vel kælda lagerbjór frá Mið-Evrópu, og notaði lifandi bjórgerla sem fengnir voru frá Þýskalandi. Í kjölfarið kom hann á laggirnar tilraunastofu í brugghúsinu og undir hans stjórn tókst vísindamönnum þar að rækta hreint ölger og koma þannig fótum undir nútíma bjórgerð. Hann taldi að þekking ætti ekki að vera einkamál eins fyrirtækis og opinberaði því leyndarmálið, öllum bjórunnendum til hagsbóta. Nútímabrugghús sitt kenndi J.C. við son sinn Carl og nefndi hæðina þar sem verksmiðjan stóð Carlsberg.

2. Castle Milk Stout

CastleMilkStout

Castle bjórinn frá Suður-Afríku var í upphafi hugsaður til að slökkva þorsta gullnámumanna og varð snemma mest seldi bjórinn þar suður frá. Brugghúsið rann síðar saman við fleiri framleiðendur og er nú um stundir eitt stærsta bjórgerðarbatterí heims, SABMiller. Öfugt við það sem kannski mætti halda eru Afríkubúar mjög hrifnir af sterkum stout-bjórum og þannig er Guinness Extra Stout til að mynda einn vinsælasti bjór álfunnar. Castle teflir fram á stout-markaðinn Milk Stout. Heitið á rætur að rekja til þess að áður fyrr bættu bruggmeistarar oft mjólk út í stout-bjóra til að gefa þeim meiri mýkt og sætu. Sú aðferð hefur raunar gengið sér til húðar en mjólkursykur er nú notaður við framleiðsluna og gerir bjórinn sætan og ljúfan á bragðið.

3. Giljagaur nr. 14

Giljagaur

Jólabjórar Borgar brugghúss hafa um nokkurra ára skeið verið nefndir eftir íslensku jólasveinunum í þeirri röð sem þeir koma fyrir í bókinni Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Yfirlýst markmið Borgar er að jólabjórarnir skuli vera eins fjölbreytilegir í stíl og nokkur kostur er. Sá fyrsti, Stekkjastaur, var því brúnöl að enskri fyrirmynd. Sá þriðji, Stúfur, var veikur, enda Stúfur lágur í loftinu, og innihélt ýmis framsækin íblöndunarefni sem aflaði honum í senn æstra aðdáenda sem hatrammra andstæðinga. En Giljagaur, jólabjórinn 2012, féll hins vegar í kramið og seldist hratt upp. Bjórstíllinn nefnist byggvín eða barleywine og er uppruninn í Bretlandi. Þrátt fyrir heitið hefur byggvín ekkert með víngerð að gera, bjórinn er alfarið úr byggi. Ári síðar kom svo á markað í takmörkuðu upplagi Giljagaur 14.1, afbrigði sem fengið hafði að þroskast í eikartunnum. Þótt hann sé nú uppseldur má vera að flaska leynist einhvers staðar ef vel er að gáð.

4. Kaldi dökkur

KaldiDo¦êkkur

Á Árskógssandi er prýðileg höfn þangað sem Hríseyjarferjan siglir. Þar eru þrjár götur: Öldugata, Hafnarbraut og Aðalbraut. Þær mynda þríhyrning sem þýðir að það er rúntur á Árskógssandi. Þessi bær við ysta sæ hefði fyrir fram ekki talist líklegur upphafsstaður byltingar í bjórgerð Íslendinga en staðreyndin er að þar hófst mikið ævintýri sem ekki sést fyrir endann á. Þar var nefnilega stofnað fyrirtækið Bruggsmiðjan sem blés öðrum kapp í kinn og hvatti menn til að hefja bjórgerð og ýtti duglega við stóru framleiðendunum. Eitt kvöldið sáu nefnilega hjónin Agnes og Ólafur á Árskógsströnd frétt um örbugghús í Danmörku og spurðu sig hví þau gætu ekki fetað í sömu spor. Framleiðslan hófst strax árið 2006 undir nafninu Kaldi undir stjórn tékknesks bruggmeistara. Kaldi sló strax í gegn og í kjölfarið kom svo dökki Kaldi.

5. Leipziger Gose

LeipzigerGoze

Gose-bjórstíllinn er einn sérkennilegasti bjórstíll varðveist hefur. Nafnið er dregið af fljótinu Gose sem rennur í gegnum borgina Gosler í Neðra-Saxlandi en þar er mjög saltríkur jarðvegur og vatnið því salt að sama skapi. Þetta vatn gerði bjórinn sérstakan og í kjölfarið breiddist stíllinn út og náði fótfestu í Leipzig sem haldið hefur tryggð við hann. En ekki er vatnið aðeins salt heldur er hlutfall hveitis í bjórnum miklu meira en gengur og gerist, jafnvel borið saman við aðra þýska hveitibjóra. Þá eru notaðir mjólkursýrugerlar við bruggunina og ýmis íblöndunarefni, sem jafnan eru víðsfjarri þýskum bjórum, svo sem kóríander. Fyrir vikið er Gose-bjórinn ákaflega óþýskur en í miklu uppáhaldi hjá Söxum. Hef er fyrir því að drekka bjórinn með kúmensnafsi sem hlýtur að gera hann að hinum fullkomna fylgidrykk íslenska brennivínsins.

6. Sierra Nevada Pale Ale

SierraNevadaPA

Í Kaliforníu er umhverfisvænn lífsstíll fyrir löngu hættur að vera viðfangsefni sérvitringa, heldur er almennt viðurkenndur sem leið til að lifa góðu lífi í sátt við jörðina og komandi kynslóðir. Sierra Nevada brugghúsið þar í sveit er í fararbroddi þegar kemur að gerð umhverfisvænna bjórtegunda. Verksmiðjan er því nánast sjálfbær um orkuöflun. Sólarskífur á þökum sjá fyrir því, allt efni sem til fellur við framleiðsluna er endurnýtt og vatnsbúskapnum stýrt af miklum myndugleik. Á tímum hins fullkomna gegnsæis er meira að segja hægt að fylgjast með þróun orkunotkunar í brugghúsinu á netinu. Ölið frá Sierra Nevada er einnig bruggað á máta sem ekki er hefðbundinn. Nútildags eru humlar í bjór jafnan fengnir frá framleiðendum sem pressa blóm humalsins, þar sem finna má hin virku efni sem gefa bjórnum sitt beiska, einkennandi bragð, og breyta þeim í einskonar grasköggla. Þetta gera Kaliforníuhipparnir ekki, en fleygja blómunum sjálfum í löginn, sem er vandasamt verk.

7. Thule

Thule

Sú var tíðin að Sana-verksmiðjan á Akureyri framleiddi Thule-léttöl sem varð eitt af einkennum hins norðlenska lífsstíls ásamt Lindu súkkulaði og KEA pylsum. Akureyringar fengu einnig að selja sterkan bjór til sendiráða og áhafna farskipa og flugvéla, eins og leyfilegt var í þá tíð, og þótti bjórinn um margt vel lukkaður. Þannig var í fúlustu alvöru rætt um stórútflutning á Thule til Bandaríkjanna um 1970 en ekkert varð úr því. Viking á Akureyri endurvakti svo Thule merkið árið 1993 og þegar Thule hreppti þriðja sæti í bjórkeppni ölsvelgja í Danmörku 1998, Dansk Ølnydeforening, hentu norðlensku víkingarnir það á lofti og úr varð herferðin “Bezt í heimi!” sem spilar á allar helstu klisjur íslensku minnipokamennskunnar og stórmennskubrjálæðisins. Svo norðlenskur er bjórinn að merki Akureyrar og táknmynd Norðurlands í íslenska skjaldarmerkinu, örninn, skreytir flöskumiðann.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram