Starfar enn við meðhöndlun á fólki þrátt fyrir ákæru frá nokkrum konum: „Málið vekur mann til umhugsunar um hvernig unnið er að kynferðisbrotamálum“

Karlmaður sem starfar sem meðhöndlari hefur verið kærður til lögreglu fyrir meint brot gegn sex konum. Brotin eiga að hafa átt sér stað á meðan konurnar voru í meðferð hjá honum. Sigrún Jóhannsdóttir, réttargæslumaður hóps þessara kvenna segir það alvarlegt að maðurinn hafi ekki verið stöðvaður. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu. 

Karlmaðurinn, sem er á fimmtugsaldri, starfar ekki á vegum þess opinbera en konurnar leituðu til hans vegna stoðkerfisvanda. Þær greina frá því að í einhverjum tilvikum hafi hann meðhöndlað þær í gegnum leggöng. Í frétt Vísis kemur fram að konurnar hafi allar verið á erfiðum stað í lífinu þegar þær komu til mannsins og að frásagnir þeirra rími hver við aðra.

Sigrún segir að rannsók lögreglu miði hægt áfram en konurnar hafi flestar gefið skýrslu síðasta vor. Málið hafi byrjað í mars á þessu ári þegar ung kona hafi leitað til hennar til að kæra manninn fyrir nauðgun. Fljótlega hafi fleiri konur lagt fram kæru og enn fleiri bíða þess enn að komast í skýrslutöku.

„Ég fékk þau svör að lögreglan ætlaði sér að skoða málin en síðan hef ég ekkert heyrt, þrátt fyrir reglulegar ítrekanir,” segir Sigrún á Vísi.

Sigrún segir að hún hafi látið lögreglu vita af konu sem nýlega sakaði manninn um brot gegn sér þegar rannsóknin hafði þegar staðið yfir í nokkra mánuði. Það brot hafi átt sér stað á meðan rannsókn lögreglu stóð yfir. Hún segir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir það brot.

„Málið vekur mann til umhugsunar um hvernig unnið er að kynferðisbrotamálum innan kynferðisbrotadeildar lögreglunnar og maður veltir fyrir sér hvað þurfi til þess að maður, sem virðist stöðugt vera að brjóta á konum og jafnvel á meðan rannsókn stendur yfir, sé hnepptur í gæsluvarðhald.“

Steinbergur Finnbogason er lögfræðingur mannsins en hann vísar ásökununum á bug. Hann segir í samtali við Vísi að kærurnar megi rekja til auglýsingar á Facebook-síðu þar sem konur voru hvattar til að segja frá framkomu hans.

Auglýsing

læk

Instagram