Steindi kláraði hálfmaraþonið með stæl: „Sé eftir að hafa ekki farið 42 kílómetra“

Skemmtikrafturinn Steindi Jr. hljóp 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í dag á rétt rúmlega tveimur klukkustundum og 30 mínútum. Steindi hljóp fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna og safnaði rúmlega 583 þúsund krónum. Athygli vakti að KFC styrkti Steinda um 100 þúsund krónur. Og það er enn þá hægt að heita á hann.

Það vakti mikla athygli þegar Steindi lýsti yfir í beinni útsendingu á Rás 2 að hann ætlaði að hlaupa hálfmaraþon. „Ég veit að ég er með smá bumbu en ég gæti hlaupið tíu skítakílómetra. Ég gæti alveg hlaupið hálfmaraþon. Það er ekki það mikið,“ sagði hann þó og ljóst var að það höfðu ekki allir trú á því að honum myndi takast þetta.

Hægt var að fylgjast með Steinda hlaupa á Snapchat-aðgangi útvarpsþáttarins FM95Blö. Hann byrjaði reyndar á að sofa yfir sig en komst í hlaupið í tæka tíð. Á Snappinu kom einnig fram að sjálfur forseti Íslands hafði sæmilega trú á okkar manni: „Allt getur gerst,“ sagði hann áður en Steindi skilaði sér í mark.

Eftir hlaupið bar Steindi sig vel en sagðist þó aldrei hafa reynt jafn mikið á líkama sinn. „Ég sé eftir að hafa ekki farið 42 kílómetra,“ sagði hann kokhraustur áður en hann sýndi blóðugar geirvörtur sínar.

Auglýsing

læk

Instagram