Svona komst Baltasar Kormákur í þetta klikkaða form: „Balti var mjög einbeittur í verkefninu“

Baltasar Kormákur kom sér í klikkað form fyrir kvikmyndina Eiðinn, sem verður frumsýnd í næstu viku. Baltasar fer með aðalhlutverkið í myndinni ásamt því að leikstýra, framleiða og skrifa handritið með Ólafi Egilssyni.

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar Telma Tómasson hrósaði Balta fyrir „byssurnar“ í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2. Nútíminn leitaði til Ásmundar Símonarsonar, Ása einkaþjálfara Baltasars í World Class á Seltjarnarnesi, og forvitnaðist um vinnuna á bakvið formið.

Sjá einnig: Geggjað augnablik í beinni þegar Telma hrósaði Balta fyrir byssurnar, sjáðu myndbandið

Ási segir að Baltasar hafi byrjað að æfa hjá sér í desember í fyrra. „Við Balti vorum sammála um það að æfingarnar áttu að miða að íþróttamannslegu útliti og heilbrigði fremur en útblásnum vöðvum,“ segir hann í samtali við Nútímann.

Upp frá þessum tíma var sko ekki slegið slöku við og sem dæmi að þá voru æfingar svo stífar í desember að eini frídagurinn sem tekinn var var sjálfur aðfangadagur.

Samkvæmt Ása fóru fyrstu æfingarnar í að byggja upp þol og styrk en Balti æfði í einn til tvo tíma í senn. „Ég vann með functinonal training þar sem unnið er útfrá core-styrk,“ segir hann.

„Markmiðið var að fá samhæfingu í líkamann áður en við fórum í að einangra vöðvahópana. Balti var mjög einbeittur í verkefninu og á milli æfinga bæði synti hann og hljóp.“

Ási segir að þegar þeir voru komnir af stað fóru þeir að vinna eftir kerfi sem kallast German Volume Training. „Það byggist á þungum lyftum og mörgum endurtekningum á fáa vöðvahópa í einu og var vöðvahópunum skipt á milli daga,“ segir hann.

„Æfingarnar stóðu nánast linnulaust þangað til tökum á Eiðnum var lokið og ég verð að hrósa Balta fyrir ótrúlegt úthald — það er ekki á allra færi að æfa stíft í tvo tíma á dag og vinna svo 12 til 16 tíma vinnudag þar að auki.“

Það er nánast ómögulegt að ná árangri í ræktinni ef matarræðið er ekki á hreinu og Ási segir að Balti hafi verið á týpísku vaxtaræktarmatarræði, af gamla skólanum.

„Mikið af prótíni og minna af kolvetnum en þar sem Balti var að vinna langan vinnudag fannst mér ekki vit í því að minnka kolvetnin um of og þar kom hann Sölvi í Gló sterkur inn sem útbjó afbragðsgóða og holla sjeika handa mannskapnum,“ segir Ási.

Auglýsing

læk

Instagram